Eftirlaunalögin afnumin?


Fréttir af ræðu formanns Samfylkingarinnar á landsfundi (14.apríl) berast um heimsbyggðina.

Ein fagnaðarfrétt er þar öðrum ofar.

Sú ákvörðun formanns Samfylkingarinnar að snúa við blaði þingflokksins í því hörmulega máli sem kennt er við eftirlaun þingmanna og ráðherra.

Fréttamat Morgunblaðsins landsfundardag er rétt: Forsíðan lögð undir þá kröfu ISG að eftirlaun ráðamanna verði fær til þess horfs sem allur almenningur býr við.

ISG kallar þetta mál ,,flein í holdi þjóðarinnar”.

Hún segist hafa verið andvíg málinu frá upphafi. Ég get borið um að það er rétt, og það voru fleiri. Ég var formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar þegar þetta gerðist og beitti mér fyrir því að Samfylkingin léti af stuðningi við frumvarpið. Strax og málið vitnaðist sagði ég í sjónvarpsviðtali að stuðningur Samfylkingarinnar við frumvarpið væri ,,mistök”. Ég nýtti mér rétt til setu á þingflokksfundum. Þingflokkinum var ljóst að málið olli gríðarlegum úlfaþyt í samfélaginu og sársauka innan Samfylkingarinnar. Mat mitt var að þeir jafnaðarmenn sem greiddu málinu atkvæði segðu ekki aðeins skilið við þjóðarsálina heldur lika hugsjón jafnaðarstefnunnar. Verkalýðsforystan stóð gjörsamlega á öndinni.


Því miður fór stór hluti þingflokksins með málinu. Þetta var misskilin hollusta við þáverandi formann og setti alla flokksmenn í mikinn vanda. Ég fullyrði að innan allra stjórnmálaflokka hafi verið fólk sem blöskraði þessi framganga Þingsins með frumvarp sem ætlunin var að keyra í gegn á einni nóttu meðan landslýður undirbjó jólahald. Eigi að síður var Samfylkingin eini flokkurinn sem hafði döngun í sér til að ræða málið opinberlega, það var eftir áramótin á flokksstjórnarfundi. Ég tel að þá hefðum við átt að taka völdin af þingflokkinum og álykta hart gegn lögunum. Sæst var á lendingu, en sárið er enn ógróið meðal margra okkar sem tökum hugsjón fram yfir hagsmunabaráttu sjálftökuliðsins.

Nú hefur formaður flokksins tekið af skarið. Frambjóðendur Samfylkingarinnar munu vissulega fylgja formanni í þessu efni. Ég hlakka til að heyra viðbrögð annarra forystumanna. Ég hlakka sérstaklega til að heyra hvað Steingrímur J. Sigfússon hefur um málið að segja nú, minnugur þess að í fyrsta skipti í samanlagðri fjölmiðlasögu Íslands náði enginn í Steingrím dögum saman meðan þjóðarhjartað sló sem örast.

Við verðum að vita FYRIR kosningar hvaða frambjóðendur taka undir með formanni Samfylkingarinnar.

Þetta er því brýning til fjölmiðla. Ef ekki næst í mannskapinn nú, hvenær þá?

Ps.

Ég veit ekki til þess að fjórum dögum síðar hafi nokkur forystumaður í stjórnmálum tekið undir með ISG.



Pps. Ég tók hins vegar eftir því samkv. ábendingu að Björn Ingi Hrafnsson (blogg) hafði enga aðra skoðun á þessum pistli aðra mínum en þá að ég væri að vega að Össuri Skarphéðinssyni! Björn Ingi er maðurinn sem sagði að Dagur B. Eggertsson hefði útvegað HR milljarðalóð til að fá að vera stundakennari við skólann! Auðvitað er þessi pistill ekki skrifaður til að vega að einum né beinum, heldur brýna alla stjórnmálamenn til að taka málið upp til endurskoðunar. Björn Ingi gerir það ekki. Hvers vegna? Finnst honum að ráðherrar og alþingismenn eigi að hafa margfalt meiri lífeyrisréttindi en aðrir landsmenn?

Til baka
Stefán Jón Hafstein - stefanjon@islandia.is