19.4.2007
Sveitarfélög í svelti

Í ræðu í borgarstjórn 19. okt. 2004 fjallaði ég um eflingu sveitarstjórnarstigsins og kallaði eftir endurskoðun á afstöðu Reykjavíkurborgar til Sambands sveitarfélaga.  Ég hef verið hrópandi í eyðimörk borgarstjórnar um þessi mál, efasemdir mínar um Samband sveitarfélaga og margsannað máttleysi þess hafa ekki hreyft við mörgum.  Hugrekkið er ekki mikið þegar markindin við kjötkatla eru annars vegar.

Þetta eru punktar úr ræðu minni: 

 ,,Efling sveitarstjórnarstigsins” er álíka vinsæl klisja hjá íslenskum stjórnmálamönnum eins og ,,endurskoðun stjórnarskrárinnar” eða ,,raunhæf byggðarstefna” eða ,,átak í jafnréttismálum”. Það gerist ekkert. Við búum nú við gjörsamlega óviðundandi aðstæður. Ríkisvaldið hefur enga forystu um þessi mál eins og hefur komið glöggt fram í umræðum hér í kvöld, bæði af hálfu borgarstjóra, formanns Sambands íslenskra sveitarfélaga og Árna Þórs Sigurðssonar borgarfulltrúa sem hér talaði síðast. Það er pólitískt forystuleysi sem kallar á okkur.

Það er auðvitað ekki við þetta forystuleysi eitt að sakast, sveitarfélögin sjálf eru alltof mörg og hafa glatað ótal tækifærum til að styrkja stöðu sína, en þeim er auðvitað nokkur vorkunn við þær kringumstæður sem við blasa sem er hrun byggðarstefnunnar.


Raunveruleikinn er því þessi: Í stað þess að sveitarstjórnarstigið hafi eflst, eins og allir tala um, hefur því í hnignað. Þetta lýsir ágætlega viljaleysi ríkisvaldsins og er hin pólitíska vídd í umræðunni sem við erum að taka hér í kvöld.

Hvers vegna ætti að efla sveitarstjórnarstigið? Í fyrsta lagi vegna þess að það er mesta valddreifingar- og lýðræðisvæðingartækifæri sem gefst á Íslandi í dag.
Menn geta endalaust fimbulfambað um beinar kosningar, um hin og þessi mál, kjördæmaskipan, fjölda ráðherra og þingmanna, en staðreyndin er sú að með því að færa hið risavaxna hlutverk ríkisvaldsins út til sveitarfélaganna, út til þegnanna, væri hægt að innleiða betri þjónustu, aukið lýðræði og meiri þátttöku og ábyrgð samborgara.

Hér er hlutfall hins opinbera 70% af hálfu ríkisins gegn 30% sveitarstjórna en ætti að vera öfugt ef miðað er við þau lönd sem við berum okkur helst saman við. Öflug sveitarfélög eru hins vegar forsenda fyrir því að við getum talað um þessi mál. Flest íslensk sveitarfélög, þessi 100 fyrir utan Reykjavík sem hér hafa verið talin upp, eru óburðug og standa engan vegin undir þeim kröfum sem nútíminn gerir. Þetta er vesældarkraðak sem verður að taka á.

Nú stendur enn ein tilraunin yfir til að sameina, og alveg eins líklegt að allir þeir sem taka sér Bjart í Sumarhúsum til fyrirmyndar, munu enn einu sinni sigra og hokrið halda áfram.
Þessi smástjórnarárátta er stærsti þröskuldurinn í vegi fyrir því að það sé vit í því að efla sveitarstjórnarstigið. Hinn stóri þröskuldurinn er frumkvæðisleysi ríkisvaldins sem ég minntist á og áhugaleysi um málið.

Þriðja hindrunin er svo afleiðingin, sem er fjársveltið. Við höfum gert það að umtalsefni í kvöld og það er rétt að halda því til haga að fjársvelti sveitarstjórnarstigsins er ekki svo hræðilegt á hinn mikla mælikvarða ríkisvaldins, ef við erum að tala um eins og staðan er í dag, að það vanti 4-5 milljarða inn í sveitarstjórnarstigið þá er það auðvitað pínulítið miðað við ein t.d. Héraðsfjarðargöng. En alltaf virðist vera til peningar í slík verkefni.

Smæðin, þessi raunverulega smæð á mælikvarða ríkisvaldsins sýnir hins vegar viljaleysið hjá ríkinu til að takast á við þetta verkefni.

Það er vert að ræða um stöðu Reykjavíkur í þessu samhengi. Við getum auðvitað ekki sagt öðrum sveitarfélögum til um æskilega stærð, samruna eða ekki, o.s.frv. Við erum ekki skuldbundin til að vera í hagsmunasamfloti með þessum örsveitarfélögum. Það er enginn sem skuldbindur okkur til þess. Og hvers vegna ættum við að vera í því? Ef menn kjósa að vera í þessum smáhreppum hingað og þangað um landið, 100 talsins, þá er ekkert sem segir að við eigum að vera í hagsmunagæslu með þeim. Hagsmunirnir eru svo ólíkir eins og verulega kemur í ljós á hinum ýmsu sviðum.

Ég tel að verði ekki breyting á þessu fyrirkomulagi, og það hratt og örugglega, eigi Reykjavíkurborg að endurskoða afstöðu sína til þátttöku í Sambandi íslenskra sveitarfélaga vegna þess einfaldlega að hagsmunir okkar eru svo ólíkir flestum öðrum sveitarfélögum og þá tala ég um tölu þeirra. Þar horfir maður meðal annars til þess að efla samstarfið á höfuðborgarsvæðinu milli sveitarfélaganna sem hafa með sér samband og síðan hvort það sé kominn tími til þess að taka upp sérstakt samband sveitarfélaga á suðvesturhorninu.

Frá Hvítá í Borgarfirði að Hvítá í Árnessýslu er nú að myndast sérstakur byggðakjarni sem hefur algjöra sérstöðu í sögulegu og landfræðilegu samhengi. Þetta er hið nýja borgríki Íslands þar sem yfir 80% íbúa landsins búa á litum hluta landsins. Þetta borgríki kallar á skipulag, samstarf, framtíðarsýn, sem hvergi sér stað í störfum Sambands íslenska sveitarfélaga eða hjá ríkisvaldinu. Hugsanir og athafnir ráðamanna eru alltaf fyrst að fljúga norður eða austur ef þeim dettur eitthvað í hug, yfir þennan byggðarkjarna, þetta nýja borgríki sem er að myndast. Það gera þeir vegna þess að þeir vilja minna sjálfa sig og alla aðra á að þeir trúa alls ekki sínum eigin augum, trúa alls ekki því sem bersýnilegt er, að byggðarstefnan er hrunin.

Borgarstefnan er því tabú í umræðunni. Ég sé ekki betur en Reykjavíkurborg verði að taka af skarið og efna til umræðu og stefnumótunar og móta framtíðarsýn fyrir þennan nýja byggðarkjarna sem nú er að rísa því enginn annar gerir það.

Eins og heyra má hef ég talsverðar efasemdir um að Samband íslenskra sveitarfélaga hafi burði til að þjóna Reykjavíkurborg og nágrönnum og mér hefur reyndar fundist það koma afskaplega vel fram í þessari umræðu hér í kvöld.

Í vor hélt Samband íslenskra sveitarfélaga ráðstefnu um grunnskólamálin. Mér var sagt til mikillar furðu að það væri fyrsta ráðstefna sem Sambandið hefði haldið í þau 8 ár sem sveitarfélögin hafa átt forræði á grunnskólanum. Það kom í ljós á þessari fyrstu ráðstefnu um þennan mikilvæga og stærsta málaflokk sveitarfélaganna að hagsmunirnir eru afskaplega ólíkir í þessum málaflokki og frumkvæði þeirra mjög takmarkað á ýmsum sviðum. Þótt ráðstefnan hafi verið ágæt til síns brúks leiddi hún í ljós með eftirminnilegum hætti hve skammt umræðan er komin á þessum sameiginlegum vettvangi og hve sundurleitir hagsmunir eru.

Á meðan þetta gerist sitja svo embættismenn sveittir í ríkisráðuneyti menntamálanna og endurskipuleggja allt grunnskólastarfið og allt niður í leikskólalífið án þess að minnsta samráð sé haft við sveitarfélögin, hvað þá stærsta sveitarfélagið, Reykjavíkurborg. Það næsta sem maður getur svo búist við er frumvarp frá sjálfu ríkisráðuneytinu um endurskoðun á grunnskólalögunum án nokkurar aðkomu þeirra sem veita þjónustuna svo maður tali nú ekki um þá sem njóta þjónustunnar.

Á þessari ráðstefnu sem við fulltrúar sveitarfélaganna vorum um grunnskólann komu einmitt þau skilaboð frá menntamálráðherra að nú ætti að fara að endurskoða grunnskólalögin. Og hvað hefur svo gerst eftir það í okkar ranni? Ekki eitt einasta orð, ekki sendibréf, ekki kvaðning frá menntamálaráðuneytinu um það að við ættum að koma að þessu. Hefur Samband íslenskra sveitarfélaga komið að þessu? Ekki svo maður viti.

Samband íslenskra sveitarfélaga virðist í þessu máli algjörlega stikkfrí, hvort sem það er sjálfvalið eða skipun ráðuneytisins. Það virðist ekkert erindi eiga inn í þessa umræðu og ekkert frumkvæði. Hins vegar hafði Reykjavíkurborg vit á því að leggja í umtalsverða vinnu á síðastliðnum vetri þar sem greindir voru fjölmargir þætti sem varða skólamál og eru á forystu ríkisvaldsins og við óskuðum eftir viðræðum sérstaklega f.h. Reykjavíkurborgar um einmitt þessi atriði. Fræðsluráð gekkst fyrir því á eigin vegum og vill beina og milliliðalausa tengingu við hið alltumlykjandi forræði ríkisvaldsins sem það tekur sér um þessa þætti skólastarfsins.

Það er eftirtektarvert að það skuli ráðist í endurskoðun á grunnskólalögunum án þess að nokkuð samráð sé haft við stærsta veitenda þjónustunnar, Reykjavíkurborg, sem hefur á sínum snærum einn þriðja allra grunnskólabarna í landinu. Og nú spyr ég. Hvað gerði Samband íslenskra sveitarfélaga þegar ráðherra gaf út tilkynningu um endurskoðun laganna? Hvert var frumkvæði þess í þessu mikla máli? Ég sé ekki betur en að frumkvæðisleysið sé algjört. 


...Og af því að hér var minnst á ákveðinn þátt í samskiptum ríkis og sveitarfélaganna sem er tónlistarnámið þá vil ég taka undir vonbrigði oddvita sjálfstæðismanna með þær viðtökur sem við fengum í menntamálaráðuneytinu. Það er auðvitað svo að ríkinu er skylt að taka frumkvæði vegna framhaldsnáms í tónlist eins og öðrum námsgreinum á Íslandi. Framhaldsnámið, framhaldskólarnir, eru á höndum ríkisvaldsins og það er bersýnilegt að framhaldsnám í tónlist hlýtur að eiga samleið með öðru framhaldsnámi og öðrum framhaldsskólum á Íslandi. Um þetta hafa staðið viðræður í rúmt ár í þeirri nefnd sem ég átti sæti í og Vilhjálmur Vilhjálmsson minntist á hér áðan og þeim lauk í sumar með viljayfirlýsingu. Það var handsalað að ríkið axlaði smábrot af ábyrgð sinni á þessu hausti. Hvað kom út úr því? Svik, eintóm svik. Það verður ekki staðið við það sem lofað var í sumar. Fest á pappír, handsalað í samskiptum sveitarstjórnarmanna og ríkisvaldsins.

Ég vil nefna annan flöt á þessu máli. Það er vissulega rétt að í lögum segir að tónlistarnám sé verkefni sveitarfélaga og það var minnst á það í ræðu áðan að svo hlyti að vera og við yrðum að semja um framvindu þessara mála við ríkisvaldið og það er það sem við höfum verið að reyna að gera. Það segir hins vegar í lögum að æðra nám í tónlist, háskólanámið, æðra nám, sé á höndum ríkisvaldsins. Nú er það svo að Tónlistarskólinn í Reykjavík er skilinn eftir á köldum klaka þegar ríkisvaldið skipuleggur æðra nám í tónlist á þann hátt að skólinn nýtur engra styrkja frá ríkisvaldinu. Þetta er bara enn eitt dæmið um það hvernig ríkisvaldið kemur fram við sveitarfélögin, bara eitt lítið dæmi um að vandanum er velt yfir á sveitarfélögin.

...


Ég leyfi mér að efast um alla þessa umgjörð, að hún sé heppileg fyrir Reykjavíkurborg einkum vegna þess að ástandið er svo yfirþyrmandi fáránlegt og árangursleysið svona algjört.
Þetta er nú myndin sem blasir við í öllu þessu tali um eflingu sveitarstjórnarstigsins. Reykjavíkurborg á að endurskoða alla sína aðkomu að þessum málum. Það er ekki síst vegna þessarar sögulegu nauðsynjar sem nú blasir við að nú í upphafi 21. aldarinnar er hér í burðarliði byggðamynstur sem á sér enga hliðstæðu en felur í sér mikinn sköpunarkraft, mikil tækifæri fyrir íslenskt samfélag. Þetta er hið nýja borgríki sem nú rís á suðvesturhorninu, rís á rústum íslenskrar byggðarstefnu. Reykavík er þar í ótvíræðu forystuhlutverki, reynslan sýnir nefnilega að ef við tökum ekki forystuna þá gerir enginn annar það.

Til baka
Stefán Jón Hafstein - stefanjon@islandia.is