29.4.2007
200 ára frá banni við þrælahaldi

Afríkumenn minnast þess nú að 200 ár eru liðin frá því (25.mars) að Bretar afnámu þrælahald með lögum. Þar með var formlega tekið fyrir nauðungarflutninga þræla frá Afríku til Ameríku, þótt enn liðu áratugir uns henni lauk í reynd. Þrælasalan skaut styrkum efnahagslegum stoðum undir hin fornu evrópsku nýlenduríki. Þetta voru mikil viðskipti: Talið er að frá 15.öld til þeirrar 19undu hafi á bilinu 10 milljónir til 30 milljónir manna verið hnepptar í ánauð í Afríku og sendar til Ameríku til að byggja þar upp efnahagsveldi hvítu landnemanna.

200 ár eru ekki langur tími í sögu Afríku, og hér tala menn um að álfan hafi enn ekki jafnað sig á þessum ,,atgervisstuldi” sem ég leyfi mér að nefna svo. Vestan hafs varð þetta ,,ódýra vinnuafl” hvati að uppbyggingu sem Afríka þarf svo sárlega á að halda enn í dag. Þessi svarti blettur á sögu hvíta mannsins verður aldrei afmáður. Hins vegar er ekki svo að Afríkumenn hafi allir hreinan skjöld: Álfan er byggð mörgum ólíkum þjóðum og þjóðarbrotum sem barist hafa innbyrðis, og margir reyndust fúsir að taka við fjármunum hvíta mannsins fyrir að fanga fólk í þrælaskipin. Og enn í dag eru syndir stórar í þessum efnum.

Þrælasala tíðkast enn

Þessi sögulegi fróðleikur væri ef til vill bara smámoli neðanmáls í dagsins önn ef ekki væri sú staðreynd kunn að þrælahald lifir enn. 200 árum eftir að það var fyrst afnumið af Bretum tíðkast nútíma þrælahald þar í landi. Og víðar um Evrópulönd. Þúsundir kvenna eru seldar nauðugar frá löndum eins og Rúmeníu, Búlgaríu og Litháen, grannlöndum okkar í hinni siðmenntuðu Evrópu. Og hverjir kaupa? Við, norður Evrópumenn: Viðskiptavinir vændishúsa og fyrirtækja sem starfa í margvíslegum ,,þjónustugreinum” utan við lög og rétt, en innan seilingar neytenda í ríkustu löndum heims.

Margar myndir þrælahalds


Þrælahald er skilgreint á mismunandi hátt. Þrælar, sem er haldið fögnum og látnir vinna með ofbeldi án launa eru taldir ,,aðeins” um 30 milljónir manna í heiminum. En þrælhald tekur á sig margar myndir: Meira en 200 milljónum barna er haldið að vinnu án launa eða umbunar, oft með ofbeldi. Meira en helmingur þeirra telst búa við ,,verstu hugsanleg skilyrði”. Milljónir manna eru hnepptir í lífstíðarfjötra með því að þeir eru neyddir til að ,,endurgreiða” lán sem þeir eru gabbaðir til að gangast við með sviksamlegum hætti. Þvinguð vinna er svo algeng í margs konar myndum að ekki eru til neinar áreiðanlegar tölur um.


Bretar áætla að nokkrar þúsundir kvenna séu árlega hnepptar í kynlífsánauð þar í landi, aðkomnar frá löndum suður Evrópu. Búlgaría og Rúmenía (Evrópusambandið!) eru talin meðal þeirra 11 ríkja sem Sameinðu þjóðirnar telja til verstu syndasela í þessum efnum. Á Indlandi eru tugir milljóna barna ,,lánuð” til vinnu fyrir aðra svo foreldrar fái umbun sem oft eru smáskildingar vegna ,,skulda” eða einfaldlega til að lina sára fátækt. Börnin sjá um húsverk og annað sem húsbændur þeirra ráðstafa þeim til og eiga enga aðra framtíð. Innan Afríku eru enn viðskipti með þræla, einkum börn, en hér í álfu er talið að allt upp í 800 þúsund manns séu í ,,umferð” með einum eða öðrum hætti í álfunni. Oft börn sem látin eru berjast í stríði.

200 ár eru stuttur tími í sögu siðmenningar, en það er tíminn síðan lög gegn þrælahaldi voru samþykkt. En hversu langan tíma tekur að afnema þræahald í raun og veru? Önnur 200 ár?

Sjá nánar: http://www.antislavery.org/homepage/antislavery/modern.htm  

Til baka
Stefán Jón Hafstein - stefanjon@islandia.is