17.6.2007
Frumbyggjar bíða

Það vakti heimsathygli í desember s.l. þegar ,,Búskmenn” í Botswana unnu mál fyrir hæstarétti landsins. Þeim var leyft að hverfa aftur að ,,heimaslóðum” sínum innan þjóðgarðs í landinu, en áður höfðu stjórnvöld meinað þeim að búa á verndarsvæðinu. Frumbyggjar hvarvetna í Afríku og víðar tóku vel eftir þessu. Þótt dómurinn næði aðeins til örfárra einstaklinga skipti hann máli í víðara samhengi. Tilkall til lands sem byggðist á einhverjum ,,frumbyggjarétti” hafði loks verið viðurkennt.
(Mynd: Gunnar Salvarsson)



,,Búskmenn” eru frumbyggjar í Kalahari eyðimörkinni sem teygir sig til Botswana, Suður Afríku, Namibíu og víðar. Þetta fólk er frægt fyrir ,,klikk-hljóðin” sem það notar í tungumáli sínu og eru táknuð með ! eða // vegna þess að ekki eru til neinir bókstafir sem ná að tákna hljóðin. Fræðibækur segja þetta fólk hafa búið í eyðimörkinni eða nálægum lendum í 20 þúsund ár, aðrir segja 40 þúsund. Lifnaðarhættirnir eru stórmerkir og engin ættbálkur hefur verið jafn mikið rannsakaður af mannfræðingum. Og enginn ættbálkur á jafn bágt nú um stundir og þetta fólk – segja margir. Búskmenn, einnig nefndir San fólk hér í Namibíu, hafa hrakist undan landvinningum og lifnaðarháttum annarra ættbálka, og eru nú hinn dæmigerði jaðarhópur sem kann ekki að þýðast nútímann, eða nútíminn kann ekki að þýðast hann. Fátækt er hræðileg meðal þessa fólks.

Í Namibíu eru 7 megintungumál San fólks, jafn mörg og aðalhóparnir, en fjöldi San er bara kringum 33 000. Í heild er talið að þetta fólk telji rétt í kringum 100 þúsund. Sumir eru svo vogaðir að telja það ,,útdautt”, en svo er ekki.

San fólkið býr í dreifðum byggðum, sjaldnast meira en 2-3000 saman, oftast mun færri, 60-100 saman í þorpi eða þyrpingu. Atvinna er af skornum skammti, skólaganga þekkist varla, ólæsi mikið og misnotkun annarra ættbálka á San fólki algeng.

San fólkið er áreiðanlega meðal ,,frumbyggja” Afríku. En hinn pólitíski veruleiki er flóknari. Ríkin sem hafa San fólk innan landamæra sinna viðurkenna ekki rétt eins hóps umfram aðra. Enda erfitt að segja að hirðingjar sem komu fyrir mörg hundruð árum séu réttminni en hinir sem aldrei slógu eign sinni á land og reikuðu bara um slétturnar í leit að rótum, dýrum og hnetum til að eta.

Hver er hinn sanni frumbyggi Afríku? Er það ekki bara svarti maðurinn? Svona spyrja menn og vilja ógjarnan viðurkenna sérréttindi sem helgast á kröfunni ,,ég kom fyrst”. Í Afríku er vagga mannkyns. Hver var fyrstur?

Og spurningin hefur víðari skírskotun. Talið er að 370 milljónir manna geti talist til ,,frumbyggja” með einum eða öðrum hætti, í 70 ríkjum. Það eru því miklir hagsmunir í húfi.

Sameinuðu þjóðirnar glíma við þetta vandamál. Fyrir skömmu lauk ,,áratugi frumbyggjans”. Þá átti að skilgreina rétt frumbyggja eins og San fólkins, Pygmea í Kamerún og Berber fólksins í Túnis. Það tókst ekki. Á haustþingi Sameinuðu þjóðanna 2007 á að freista þess að ná samkomulagi um ályktun um frumbyggjasamfélög.

Á meðan beðið er batnar ástandið ekki.

 

Myndir: Gunnar Salvarsson

Til baka
Stefán Jón Hafstein - stefanjon@islandia.is