9.3.2008
Dagbækur frá Afríku: Mars 2008


Regn yfir Ethosa við sólarlag.

Fjölmargt fólk hefur samband við mig gegnum vefinn og margir vilja fræðast um ferðir til Afríku. Flesta óar við ,,blóðsugum, sjúkdómum og glæpum” eins og einn viðmælandi komst að orði við mig heima um daginn. En marga dreymir um að komast til álfurnnar ,,gleymdu” og kynnast mannlífi og náttúru. Namibía er einkar vel til þess fallin að gera að áfangastað, hún er ,,Afríka fyrir byrjendur”.
Það sýnir myndasagan hér vel.

Á vefnum má nú finna leiðbeiningar fyrir þá sem vilja koma hingað, og sérstaka grein um Namibíu. Afríka er stór heimsálfa og órúelgar andstæður í boði, sumt beinlínis hættulegt annað hreint út sagt dásamlegt. Leiðarvísir er kominn á www.stefanjon.is.

Við kveðjum nú Namibíu eftir eins árs dvöl og höldum til Malaví. Löndin gætu ekki verið ólíkari. Namibía annað strjálbýlasta land í heimi á eftir Mongólíu (Ísland er í þriðja sæti!). Malaví er aðeins stærra en Ísland en þar búa 12-13 milljónir að því er talið er. Ákaflega þéttbýlt land og auðugt af vatni; Malaví vatn er náttúruundur eins og namibísku eyðimerkurnar á sinn hátt. En það er talið eitt af fátækustu ríkjum heims.

Ég hefði kosið að kynnast Namibíu enn betur, og hef heitið sjálfum mér að gera það þótt síðar verði. Nú blandast söknuður tilhlökkun við að takast á við stór verkefni í Malaví.

Á dögunum átti ég kost að hitta nokkra sérfræðinga um alnæmismál í Afríku og skýrsla fylgir hér. Á hverjum degi deyja 8000 þúsund manns og 11 þúsund smitast. Útbreiðsla hægir á sér smátt og smátt, en hætt er við að þúsaldarmarkmiðum um að snúa við þróun verði erfitt að ná. Alnæmi er samofið samfélagsgerðinni, svo hræðilegt sem það er. Í Botswana eru 30% fullorðinna smituð. Í Lesoto og Swsilandi er hlutfallið svipað, í Namibíu 20% og Malaví um 14%. Helsta vandamálið er skortur á heilbrigðisstarfsfólki í þessum löndum. Heilbrigðisþjónustan ber ekki byrðarnar af alnæmi ofan á allt annað. Þriðji hver menntaður læknir og hjúkrunarkona frá Zimbabwe vinnur á Vesturlöndum. Svona er ástandið víðar í suður hluta Afríku; atgervisflóttinn gerir miklu meira en vega upp á móti þróunaraðstoð. Það sem ríka fólkið gefur með annarri hendi yfirborgar það með hinni – svo kaldhæðnislegt sem það hljómar. Fátæku löndin horfast í augu við að heilsugæsla er orðin ,,heimsmarkaður” fyrir menntað fólk og lyf; þau tapa í samkeppninni.

Hér í Namibíu eru góðar fréttir af regni: Eftir þurrkaárið í fyrra hefur rignt ótæpilega, reyndar um of. Fyrir norðan steðja að margvíslegir erfiðleikar vegna vatnsaga og hefur ríkisstjórnin orðið að heita sem svarar til 2 milljörðum króna til að bæta tjónið. Fyrst þurrkar og svo þetta.

Til baka
Stefán Jón Hafstein - stefanjon@islandia.is