12.12.2010
Skordýraveisla - er framtíðin



Termítar: Mikið lostæti (að sögn).

Mannkyn verður að borða meira af skordýrum! Þetta eru orð vísdómsmanna sem sjá enga vænlegri próteingjafa í framtíðinni en engisprettur, bjöllur og kakkalakka. Það þarf ekki að hvetja heimafólk í Malaví til að borða skordýr: Termítar eru herramannsmatur og þeir eru tíndir hér eins og ber heima á Íslandi!

Um leið og rigningar hefjast leggja termítarnir upp í sinn árlega leiðangur. Til að nema nýjar lendur yfirgefa þeir heimahraukinn, vængbúast og flögra inn í næturmyrkrið þegar jörðin er orðin rök og mjúk eftir fyrstu skúrir. Þeir leita í ljósin: Á þeim fáu stöðum sem yfirvöld hafa komið upp ljósastaurum er eins og stórhríð geysi; þegar maður ekur um göturnar er sem skafrenningur fjúki. Þetta eru tifandi vængirnir sem eru á stærð við neglur á fegurðardrottningum. Loks falla fljúgandi maurarnir til jarðar og eiga kynmök meðan þeir hrista af sér vængina og leita að góðum holum til að hefja nýtt bú. Það er þá sem fólkið hremmir þá, safnar í fötur og steikir á pönnu.

Fleiri ættu að eta skordýr. Reyndar eru það aðeins Vesturlandabúar sem fúlsa við skordýrum, Evrópumenn og Ameríkanar. Mikill meirihluti mannkyns (80%) sækir sér næringu og sælkeramunúð í heim skordýranna. Miðað við próteingildi eru skordýrin mun heppilegri til ræktunar en nautgripir, svín og lömb. Það kostar 10 fóðureiningar úr jurtaheiminum að framleiða eina einingu af kjöti. Fyrir 10 kíló af jurtafóðri fær maður hins vegar 6-8 kíló af skordýrapróteini. Hlutfallið er einfaldlega mun hagstæðara. Og skordýraprótein stendur nautgripapróteini fyllilega á sporði að gæðum.

Þeir segja hinir spöku að árið 2050 verði mannkyn 9 milljarðar. Til að fæða allt þetta fólk þurfi að breyta landbúnaði. Nú eru 70% ræktaðs lands tekin undir kvikfjárrækt. Þetta er óhagkvæm próteinframleiðsla. Nær væri að taka þetta land undir skordýrarækt, og eina leiðin reyndar, til að búa til nóg af þessu fæðuefni í framtíðinni.

Miðað við skaflana af termítavængjum sem koma inn á eldhúsgólf hjá mér í upphafi regntímans má líka segja að þetta sé einkar auðveld fæðuöflun sé rétt að staðið. Bara opna gluggann og sópa eldhúsbekkinn reglulega.

Til baka
Stefán Jón Hafstein - stefanjon@islandia.is