4.5.2011
Nóg að gera hjá húsmæðrum


(Maí 2011)  Um þessar mundir er nóg að gera hjá húsmæðrum á uppskerusvæðum Malaví.  Maís er orðinn þroskaður og þurr á stönglum.  Þá hefst sú tíð sem líkist sláturtíð fyrrum daga heima á Íslandi, bjarga verður verðmætum til næsta árs. 


Svona er maís á jurtinni.  Vafinn í sölnaðan vöndul.  Stönglar eru nú teknir innan úr og bornir heim í hlað, þar eru þeir þurrkaðir betur í sólinni.  Síðan er kornið skafið af og sett á dúka til að þerra enn betur, líkt og saltfiskur var flattur og þerraður heima. 


Þegar kornin eru skafin af liggja þau á mottum til þerris uns þau eru möluð í mjöl sem er geymt til ársins, oft í bastkörfum utan dyra.  Það er stórvandamál í Malaví að geyma maís svo ekki skemmist eða skordýr éti, sagt er að allt að 40% uppskeru fari forgörðum vegna skemmda. 

Malavíski maísinn er ekki þessi guli sæti sem oft fæst innfluttur á Íslandi, hann er hvítur og talsvert grófari og harður undir tönn, jafnvel þótt soðinn sé.  Mjölið sem fæst er undirstaða í daglegum þjóðarrétti sem kallast Nzima og er etið sem stappa, bragðdauf og litlaus.  Ef vel stendur á snæða menn sósur með, gerðar úr lauk, tómötum og olíu, en ef veisla er í vændum er búið til viðbit úr fiski eða kjúklingi til að hafa með maísjafningnum. 

Til baka
Stefán Jón Hafstein - stefanjon@islandia.is