Dagbækur frá Afríku: Janúar 2008
Dagbækur frá Afríku

Janúar 2008


Álfan heita heilsar nýju ári með blendnum huga. Margvíslegur uppgangur í efnhagsmálum hefur skotið fólki fram á veg miðað við þá hryggilegu stöðnun sem áður ríkti áratugum saman hvað sem leið þróunaraðstoð og heilræðum úr öllum áttum. Hrávörur hækka í verði á heimsmarkaði og það hjálpar ríkjum sem eiga auðlindir í jörðu eða hafsbotni. Ferðamannastraumur eykst víða. Ný olíuríki auðgast.  Kínverjar fara um allt og bjóða aðstoð og tryggja sér aðgang að auðlindum.  Hagvöxtur mælist góður í að minnsta kosti þriðjungi Afríkuríkja.





En hagvöxtur einn og saman segir ekki alla söguna.  Fátækt er enn gríðarleg og ójöfnuður hamlar hreinlega þróun.   Kenningin um það að hagvöxtur lyfti undir alla, þó hugsanlega í mismiklum mæli, stenst ekki á mörgum sviðum.  Stór hluti íbúa Afríku verður hreinlega eftir.  Í álfunni er lang stærsti hluti íbúanna sjálfsþurftarbændur utan við hefðbundnar markaðsleiðir og oft algjörlega utan við peningahagkerfið.  Ef þetta fólk svo flyst til borganna í von um betra líf á ,,hagvaxtarsvæðum" tekur við það sem ég kalla borgarstíulífið.

Pólitíska ástandið er skelfilegt í Darfur í Súdan og Sómalíu þar sem áratuga ógnaröld ætlar aldrei að linna. Loksins hysjaði alþjóðasamfélagið upp um sig og sendi friðargæslu til Darfur, en með hálfum huga. Þar eru nú vanbúnar sveitir sem skortir tæki sem þarf til að halda uppi lágmarksöryggi fyrir fólkið. 250 þúsund eru talin hafa týnt lífi í þessu héraði sem ég fjalla sérstaklega um hér. Augu heimsins beinast svo að Keníu þar sem stjórnmálaspilling virðist komin á hástig: kosningasvindl og óeirðir á götum, særindi milli ættbálka taka sig upp og magnast í átök sem eiga rætur að rekja allt til þess að Bretar deildu og drottnuðu. Enn er ekki lokið uppgjörinu frá nýlendutímanum.

Bjarta hliðin er sú að skærustu stjörnur álfunnar skrýðast stuttbuxum og takkaskóm til að koma tuðrunni í mark. Afríkubikarkeppnin kallar milljarð manna að sjónvarpstækjunum og gleðilegur sótthiti grípur hal og sprund um alla Afríku. Gaman gaman!

Eftir eitt á í Namibíu er ég elskari að þessari mögnuðu heimsálfu en fyrr og var all nokkuð þó. Dásemdirnar eru slíkar. Náttúrufegurðin í eyðimörkinni, dýrin á mörkinni og fjölbreytt mannlífið eilíft upplifunarefni.

Hjá Þróunarsamvinnustofnun hér í landi hefur meginkrafturinn farið í að undirbúa vatnsbólaverkefni með Himbum norður í landi, skipuleggja stórátak fyrir heyrnarlausa og afla gagna og upplýsinga til að koma á laggirnar leikskólum fyrir San börn. Þessir þrír hópar eru á margan hátt óhreinu börn Namibíu, og viðurkennt í opinberum gögnum að þeir eigi helst undir högg að sækja. Þörfin fyrir vatnsból hjá hirðingjunum Himbanna sannast nú þegar þurrkar herja norður frá. Hinn ,,opinberi” regntími hefst í október og í janúar á allt að vera á floti. Enn kemur ekki deigur dropi af viti og skepnur byrjaðar að falla nyrðra. Við náðum að bora sex holur í desember og kom þá í ljós að grunnvatn var minna en ætlað var. Svo ætlum við að efla leikskólastarfið á Himbasvæðum og gefa kost á fullorðinsfræðslu.  Ég heimsótti himbana oft á liðnu ári og heillaðist af þessu stolta fólki sem heldur eigin merkjum hátt á lofti.  Hádegisverðarfundur með geit í matinn tók á helstu álitamálum um beitarstjórn meðan við ræddum önnur og brýn mál undirforsælutré á borgarafundi.

Litlir sigrar eru líka sætir. Við styrktum heyrnarlausa nemendur í 10unda bekk til að fá sérstaka aukatíma til undirbúnings lokaprófum. Ekki veit ég hvort þakka megi því, en nú náðu þrír heyrnarlausir nemar lokaprófi í grunnskóla og hefur aldrei gerst áður! Við viljum styrkja þau og fleiri til framhaldsnáms. Og við vonumst til að koma tveimur efnilegum leiðtogum heyrnarlausra í háskólanám á þessu ári, fullorðinsfræðsludeild. Í febrúar hefst annað námskeið okkar til að efla skólastarf fyrir heyrnarlausa með komu kennara að heiman, en þetta starf hófst fyrir alvöru í fyrra.

Hvers vegna þessi áhersla á menntun fárra einstaklinga samhliða stærri verkefnum? Við finnum með San fólkið og heyrnarlausa að skortur á menntuðum leiðtogum og frömuðum sem geta tekið að sér uppbyggingarverkefni háir framförum. Á Íslandi var sú leið farin til að byggja upp samfélag heyrnarlausra að handleiða einstaklinga og styrkja gegnum nám. Það skilaði árangri sem nú er fyrirmynd hér. Hjá San fólki eru örfáir einstaklingar sem hafa lokið 10unda bekk og hægt að telja á fingrum annarar handar fólk sem hefur framhaldsskólapróf. Þar hafa menn líka reynt að handleiða efnilega nemendur gegnum framhaldsskólastigið. Í tilfelli heyrnarlausra og San er um að ræða þjóðarbrot sem eiga ekkert undir sér, hvorki félagslega, menningarlega, efnahagslega eða á annan þann hátt sem gerir fólk gildandi á meðal annarra hópa. Skorturinn er altumlykjandi: Aðeins 300 heyrnarlaus börn eru í grunnskóla af hópi sem við ætlum að sé 6000 á skólaskyldualdri. Meðal San fólks er ástandið svo bágborið að líkja má við menningarlegan strandstað, þetta stórmerka fólk lifir hvorki í þessum tíma né öðrum. Fé og fyrirhöfn til hjálpar þessu fólki er vel varið.

 

Meira á þessum síðum:

Frumbyggjar og San fólk.

Myndafrásögn til San.

Svipmynd af Nambiíu

Himbabörn á förnum vegi

Til baka
Stefán Jón Hafstein - stefanjon@islandia.is