Dagbækur frá Afríku: Apríl-maí 2008

Garðyrkjumaðurinn hitar maísgraut í hádeginu.  Alltaf verður grauturinn dýrari.
(mynd: gks)



Ef kreppa á fjármálamörkuðum herjar á þá ríku og gróðasæknu má lýsa annarri kreppu hjá þeim sem varla eiga til hnífs og skeiðar: Kreppu á matvælamarkaði. Almennir verkamenn í Malaví segja að hveiti hafi hækkað um 70%, korn um 50%, olía um 30% og húsnæði annað eins. Listinn er lengri. Til óeirða kemur víða um álfur, ekki síður í Afríku en Suður Ameríku vegna þess að fólk á ekki lengur fyrir mat. Sameinuðu þjóðirnar kalla til neyðarfundar og segja að 100 milljónir manna muni færast niður fyrir fátæktarmörk í ár vegna hækkunar á matvælum. Þarna þurrkast út seinfenginn og hægur ávinningur af þróunarmálum á örfáum mánuðum.

Þrjár meginástæður eru fyrir þessari þróun.

Slæmt árferði í mikilvægum ræktarlöndum er ein. Hún myndi ekki gera útslagið ef fleira kæmi ekki til. Allt í einu vaknar stór kínversk millistétt upp við það að hún vill nýtt neyslumynstur, kjöt og korn, og meira af öllu. Það sama gerist á Indlandi þegar stórveldin í austri vilja líkja eftir vestrænum neysluvenjum. Nýfengin kaupgeta sprengir upp verð á mörkuðum. Og svo hafa menn tekið upp á að borga peninga fyrir að breyta eldsneyti fyrir fólk, í bensín á bíla. Lífrænt eldsneyti hleypir upp verði á korni. Fátæka fólkið er ekki samkeppnishæft, ekki nú frekar en fyrri daginn. Þá vakna mörg lönd Afríku upp við að þau hafa vanrækt ladnbúnað. Þau sem áður voru sjálfum sér nóg um hrísgrjón og maís skiptu að ráðum ,,færstu sérfræðinga” yfir í ,,útflutning og innflutning” með aukinni sérhæfingu. Áhersla á grunnþarfir gleymdist meðan matur var ódýrari. Þetta þýðir að þar sem áður var nóg framleitt af grunnvöru er það ekki lengur gert. Jákvæða hliðin á þessu er sú að hugsanlega myndast hvati fyrir afríska sjálfsþurftarbændur að framleiða meira og selja á markað. Matur, olía og vextir eru hástökkvarar ársins í verðbólguveröld – allt tákn um erfiða tíma.

Í suðurhluta Afríku tekur nú að hausta eftir bólginn regntíma sem færði mörg héruð á kaf, allt frá Mósambik til Malvaví, áfram til Simbabve og Zambíu og Namibíu. En það þýðir að uppskera er góð fyrir þá sem tókst að halda í sitt. Hér í Malaví má sjá stóra hauga af maís, sem er aðalfæða fólksins, búið er að taka kornið af stönglum og breiða út til þerris og undirbúa fyrir geymslu. Maísinn er malaður í duft og síðan hræður í kökur sem líta út eins og vel þykkur hrísgrjónavellingur og kallast N’zima. Þetta er aðalfæðan alla daga, viðbit er haft í smáskömmtum með, grænmeti í sósu eða fiskur í stöppu ef vel gengur. Tómatar, kartöflur og laukar eru í myndarlegum stæðum meðfram vegum til sölu. Þetta er góður tími hjá fólkinu í þessu fátæka landi.

Einhver nefndi í mín eyru að Malaví væri mesta fátæktarbæli utan stríðssvæða á jarðríki. Kannski ofmælt, en ekki mjög. Hér búa 13-14 milljónir manna og 80% hafa minna en 2 dollara á dag. Ef Íslendingar hefðu jafn marga lækna á hverja þúsund íbúa og Malavar, væru sex læknar á Íslandi: Einn á Egilsstöðum, einn á Akureyri, einn á Ísafirði og þrír í Reykjavík. Enda er barnadauði hér skelfilegur. Flestir íbúa landsins hafa upplifað hungusneyð oftar en einu sinni. Landið er kallað ,,hið heita hjarta Afríku” vegna þess hve fólkið er vinsamlegt og friðsamt. En mikið á það bágt.

Ég flutti hingað til Malaví frá Namibíu um páskana og kynnist nú nýjum aðstæðum. Höfuðborgin var ekki nefnd í landafræði æsku minnar, heitir Lilongwe og lítur út eins og víðfeðmt sveitaþorp, nema tveir litlir húsakjarnar minna á borg. Hér eru 700 þúsund manns, umferðarljós voru kynnt til sögunnar í fyrra og menn virða þau svona mátulega. Internet færist smátt og smátt inn í helstu hús og þeir vel stæðu horfa á gervihnattasjónvarp. Auglýsingaskilti rísa með vegum og bensínstöðvar eru farnar að selja óhollustu dýru verði eins og heima. Snakk og kók og kex. Meðal stórfrétta í ríkra manna samfélaginu er að nú var opnuð ítölsk sælkerabúð sem selur eitt og annað, vel þekkt úr mörkuðum heima. Ein lítil innkaupakarfa kostar tvenn mánaðarlaun hátt launaðs verkamanns. Nútíminn seilist til valda hér og fer víst geyst miðað við hve landið var afskipt áratugum saman. Hagvöxtur er góður, kringum átta prósent, en næstum 70% af fjárlögum ríkisins er gjafafé frá Vesturlöndum og Kína.

En lang flestir íbúa vita fæst af þessu, búa í leirkofum með stráþökum og rækta sinn maís. Fólksfjölun er geysihröð og landið stendur ekki undir, skógar eyðast, ræktarlönd sem hver íbúi getur nytjað minnka þegar fleiri gera tilkall til að lifa af landinu. Þegar Malaví fékk sjálfstæði kringum 1960 voru 3-4 milljónir manna í landinu, nú 13-14 milljónir.

Þróunarsamvinnustofnun Íslands heldur hér úti sínu stærsta útibúi með verkefnum við Apaflóa við Malavívatn. Við byggjum upp spítala, höldum úti fullorðinsfræðslu, gerum vatnsból og kennum hreinlæti því samfara, reynum að bæta fiskveiðitækni á vatninu í samvinnu við heimamenn og endurbætum skólabyggingar. Þetta eru allt þörf og mikilvæg verkefni, misvel á vegi stödd og viðfangsefnin við hvert þeirra ólík og krefjandi. Við erum sex sem störfum hjá ÞSSÍ í Malaví, og svo bætast við makar sumra svo hér er Íslendinganýlenda, þótt ekki sé stór.

Malaví er land sem verður fátækt um fyrirsjáanlegan tíma. Landið hefur fátt með sér. Það er landlukt og hefur ekki aðgang að mikilvægum flutningsleiðum fyrir vörur. Það er umkringt ríkjum sem basla hvert á sinn hátt, og því skolast ekki mikið af hagvexti inn frá nágrönnum. Fólksfjölgun er gíðarleg, en menntun á mjög lágu stigi. Matvælaframleiðsla nægir til að brauðfæða fólkið í góðæri, en bregði útaf verður hungursneyð. Besta vonin er sú að smátt og smátt, á löngum tíma, verði hægt að bæta alla helstu þætti, mannfólk og matvælarækt, svo smám saman auist lífsöryggi og úrræðum fjölgi. Af þeim sjónarhóli sem ég nú sit og virði fyrir mér mannlíf í nýju landi er ekki margt framundan nema basl og lífsbarátta eins og hún er erfiðust. Vilji Íslendingar létta undir geta þeir það. Á næsta ári verða 20 ár frá því að þróunaraðstoð Íslands hófst í Malaví.

 

Aðgengileg grein um stöðu landbúnaðarframleiðslu í þróunarlöndum er hér á ensku úr New York Times.  Sagt er frá því hvernig rannsóknir hafa dregist saman, fjárfesting í matvælaframleiðslu minnkar, og niðurgreiðslur í ríku löndunum hafa skekkt samkeppnisstöðu fátækra bænda.


Til baka
Stefán Jón Hafstein - stefanjon@islandia.is