Ævintýri á gönguferð


Hreinsað úr eyra vörtusvíns, gott samstarf í dýraríkinu.

Mér finnst ég aldrei hafa tapað á því að vakna snemma til móður náttúru. Að rísa úr rekkju með sólinni er hinn náttúrulegi gangur og mörkin, gróandinn og dýrin launa manni ríkulega nærveru ,,töfrastundina” þegar geislar sólar þurrka dögg og lýsa eftstu fjallatinda eða trjástofna. Í einum af þjóðgörðum Malaví er hægt að fá hagvanan mann með sér í morgungöngu og sýna það helsta sem fyrir augu ber meðan afríska nóttin lætur undan fyrir fyrstu geislum sólar.



Við bjuggumst ekki við að sjá fíla, ljón eða nashyrninga, en eitt af því fyrsta sem við sáum voru þó fílaspor í sandinum. Og hýenuskít, hvítan eins og skyr, því þær éta svo mikið af beinum. En núna eru þær skriðnar í skjól því þær hafa sig hægar í dagsbirtu.



Fystu dýrin voru hinar undurfögru impala antilópur sem horfðu hissa og skutust svo inn í rjóður.

Skammt undan grillti í bavíana í þungum þönkum.



En uppi í tré lá annar á grein og svaf frameftir.

Í næsta tré mátti sjá aldini sem apar, fílar og nashyrningar éta og kallast ,,bjúgaldin” í minni þýðinu því það lítur út eins og maturinn sem norðlendingar kalla sperðil.

 

Þau hrynja niður undan eigin þunga og þá er nú veisla, hvert um sig vegur 2-3 kíló og er á bragðið eins og hrá kartafla með blöndu af rófu og næpu og viðkomu eins og hart eggaldin – svo maður tali eins og vínsælkeri.



Impalaliljan teygði sig mót sólu, fögur að líta en í stofninum geymir hún eitur því ekki vill hún láta éta sig.

Varnarvirki náttúrunnar er merkilegt: Eitt tré er þakið stórum þyrnum. Ef til vill til að hrinda frá fílum sem eru gjarnir á að fella tré og éta af þeim laufið.



En ,,kyrkislönguviðjan” finnur sér þá bara annað tré til að vefja sig utan um.



Undir næsta tré lá vörtusvínafjölskylda. Grislingarnir í kös við belginn á mömmu, það rétt glytti í þau í felulitum og einkum voru það hvítar tennur gyltunnar sem komu upp um þau í forsælu.

Mamma vaknaði við umganginn og teygði úr sér. Morgunsnyrtingin felst í því að kalla til þernu í fuglslíki, hún skoppaði um skrokkinn og kroppaði lýs af svínun og lauk verkinu með því að hreinsa innan úr eyrunum.

Þau eru mörg morgunverkin.

Til baka
Stefán Jón Hafstein - stefanjon@islandia.is