Árangur af þróunaraðstoð?

(Þessi grein birtist fyrst í Vísbendingu júlí 2008)

Ætla má að árlega sé varið um 100 milljörðum dollara til þróunaraðstoðar í heiminum. Helstu kannanir benda til þess að lífskjör í þróunarlöndum séu betri fyrir vikið. Að líkindum væri samt hægt að ná enn meiri ávinningi fyrir þetta fé með bættum vinnubrögðum. En samt þarf miklu meira. Milljarður manna fær ekki hreint vatn og 2,4 milljarðar manna hafa ekki hreinlætisaðstöðu. Að jafnaði deyr eitt barn úr malaríu á 30 sekúndna fresti. Meðalævin í fátæku löndunum er að um helmingi styttri en á Vesturlöndum. Þörf er á tvennu í senn, auknum framlögum og meiri skilvirkni.




Dæmi um mistök í þróunaraðstoð eru mörg. Þau sanna ekki að þróunarsamvinna almennt hafi ekki skilað árangri og sýna má fram á margvíslegan ávinning í baráttu við sjúkdóma, menntunarskort og efnahagsóáran. Aðstoðin í nútímalegri mynd hófst við lok síðari heimsstyrjaldar og hefur þolað margar kollsteypur síðan. Hún markaðist í fyrstu af kalda stríðinu og endalokum nýlendustefnu. Inn í hana blönduðust hugmyndafræðileg átök ríkisfrumkvæðis og frjálshyggju. Rauði þráðurinn var samt allt til okkar daga hugmyndin um vestræna nútímavæðingu og hagvöxt með iðnaði, verslun og háu neyslustigi.


Uppgjör um markmið og leiðir

Í upphafi 21. aldar má sjá teikn um tvenns konar uppgjör.

Í fyrsta lagi við þróunarhugmyndina sjálfa. Ef allir íbúar jarðar myndu ganga á auðlindir jarðar af sama krafti og íbúar ríku landanna jafngilti það því að mannfjöldi væri 70 milljarðar en ekki 6,5 milljarðar. Ekki er hægt að svara svo mikilli kröfuhörku um vatn, orku, ómengað loft og mat. Hagvaxtarmódelið gengur ekki upp án hugmyndarinnar um sjálfbæra þróun. Talið er að 10% hagvöxtur Kína að meðaltali sé í raun neikvæður ef mengun og auðlindarask er reiknað inn í dæmið. Umræðan um loftslagsbreytingar hefur knúið menn að þessari niðurstöðu, þótt gjörðir séu ekki í samræmi við hana. Ef spár um loftslagsbreytingar ganga eftir verður Afríka fyrir mestum skakkaföllum, en hefur lagt minnst til vandans. Í fátækustu löndunum spyrja menn því eðlilega: Eigum við nú að borga fyrir ósjálfbært neyslufyllerí Vesturlanda? Það þarf að endurskoða útgangspunktinn um endalausan hagvöxt.

Hitt uppgjörið felst í því að viðurkenna mistök við þróunaraðstoð á liðnum áratugum. Alltof margir gera alltof margt með alltof litlum peningum. Niðurstaðan er því sú að helstu stórveldin (G8) lofa að stórauka þróunarframlög. Þau ætla að einfalda markmiðin (Þúsaldarmarkmiðin) og segjast vilja vinna betur með þróunarríkjunum sjálfum að sveigjanlegra og einfaldara módeli en áður tíðkaðist. Í heiminum veita alls um 200 stofnanir þróunaraðstoð, auk frjálsra félagasamtaka sem spanna litrófið frá Rauða krossinum til sértrúarsafnaða. Í sumum þróunarlöndum starfa meira en 40 þróunarstofnanir, sem sýnir fargan sem fer ekki saman við fjárskort. Fyrir mörgum áratugum var því lofað á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna að framlög yrðu 0,7% af vergri þjóðarframleiðslu iðnríkja. Árið 2005 voru þau að meðaltali 0,24% og einungis fimm ríki höfðu staðið við loforðið. (Danmörk, Holland, Noregur, Svíþjóð og Lúxemborg. Ísland hefur aukið sitt framlag og stefnir í 0,35% árið 2009). Miðað við framlög er 15 ára verkefnið sem kennt er við Þúsaldarmarkmiðin (2000-2015) nú 130 árum á eftir áætlun. Fátækasti hluti heims, Afríka sunnan Sahara, fær nú minni aðstoð en fyrir 20 árum. Aukin framlög og skilvirkni eru kall tímans.

Uppgangur og eftirseta

Síðustu 30 ár hafa orðið vatnaskil. Flest ríki heims þokast áleiðis, sum taka risastökk, önnur mjakast áfram hægt og bítandi. Jafnvel í fátækustu álfu heims, Afríku, má sjá hagvöxt og framfarir í lýðræðisátt hjá nær helmingi ríkja. Þúsaldarmarkmið S.Þ. eru í raun of víðtæk. Aðgerðalistinn er í 400 til 500 liðum og nær til ríkja þar sem um fimm milljarðar manna búa. Hins vegar býr alls um einn milljarður manna í þeim 30-40 ríkjum sem sitja föst á botninum. Flest eru í Afríku. Færa má rök fyrir því að beina eigi þróunaraðstoð til þessara landa öðrum fremur. Þau eru oft landlukt og bjargir bannaðar. Væringar og borgarastríð há sumum. Mörg búa við einhæft hagkerfi þar sem renta af einni auðlind skekkir efnahagsgrunninn. Víða er stjórnarfar lélegt. Þessi einkenni má finna í mismunandi mæli í öllum ríkjunum sem eftir sitja.


Í Malaví, þar sem undirritaður starfar nú má sjá nokkur þessara einkenna: Óþroskað lýðræði á réttri braut eftir langa einræðisstjórn; landlukt ríki, sem torveldar aðföng og verslun. Grannríki eru líka illa stödd. Engin náttúruauðlind er ráðandi sem er bæði blessun og böl. Fólksfjölgun er gríðarleg. Sjálfsþurftarbændur sem eru 80% þjóðarinnar ná vart að brauðfæða sig og ört gengur á landgæði. Meðalævi er innan við 40 ár og langflestir hafa minna en einn dal á dag til framfærslu. Ekkert bendir til að svona land geti tekið ,,stökk framávið“ um langa hríð. Enda er það efnahagslega ósjálfstætt. Framlög gjafaríkja nema 66% af ríkisútgjöldum. Sem betur fer er Malaví friðsamt land. Ef hér væru gullnámur eða olíulindir segir sagan okkur að líklega væri barist um þær. Hætti aðstoð mun ríkið lenda í miklu meiri hremmingum og hugsanlega hungursneyð. Með aðstoð tekst að þokast um hænufet í senn.

Um mörg eftirsetulandanna má segja að þau hefðu aldrei orðið sjálfstæð eining nema fyrir þau aumku örlög að verða til á teikniborði gömlu nýlenduherrana. Þau standast ekki sem efnahagsleg eða menningarleg eining og hefðu betur þroskast sem hluti af stærri ríkisheild með breiðari grunn en þau búa að. Samt ríkir ekki svartnættið endalaust og óvarlegt að dæma bágstödd ríki endanlega úr leik. Bangladesh var álitið algjörlega vonlaust dæmi fyrir örfáum áratugum, nú eru þar góðar framfarir. Þróunaraðstoð getur skipt sköpum þegar finna má vaxtarsprota.


Kreppa á kreppu ofan

Framvinda heimsmála að undanförnu hefur gríðarleg áhrif í fátækustu ríkjunum. Ekki er hægt að yfirfæra reynslu uppgangsríkja eins og Kína, Indlands, Víetnam og jafnvel Bangladesh á ríkin sem eftir sitja. Fjárfesting og þekking streymdi inn í uppgangsríkin þegar vinnuafl á Vesturlöndum varð of dýrt. Ríkin á botninum misstu af þessari lest, og það sem verra er, haltrandi iðngreinar þeirra standa enn verr en áður í samkeppni við ódýra framleiðslu uppgangsríkja eins og vefnaðarvörumarkaðurinn sýnir. Hækkandi orkuverð keyrir landluktu ríkin niður og samkeppnisstaða sem var bág fyrir verður vonlaus. Jafnvel bjargálna smábændur sem voru farnir að selja vörur á markaði innanlands geta það ekki lengur þegar trukkarnir stoppa vegna bensínleysis og áburður hækkar í verði.

Ein skýring á matvælakreppunni er niðurgreiðslur Bandaríkjanna og Evrópusambandsins í landbúnaði. Þær skekktu mjög samkeppnisstöðu bænda í þróunarlöndum. Þetta beindi fjárfestingu frá matvælum í útflutningsgreinar sem nú tapa í samkeppni við uppgangsríki. Heilræði hagfræðinga að vestan reyndust fölsk. Miðað við fólksfjölun er matvælaframleiðsla heimsins minni nú en fyrir 20 árum. Evrópusambandið heimtar að fátæku ríkin afnemi verndartolla á heimaiðnað en niðurgreiðir eigin landbúnað um 60 milljarða dollara á ári. Sama gera Bandaríkin við Mexíkó þrátt fyrir fríverslunarsamning. Fólki við hungurmörk fjölgar úr 850 milljónum í 950 milljónir í ár vegna þess að landbúnaður í þróunarlöndum hefur setið eftir. Meira að segja fjármálakreppan bitnar á þeim fátæku. Peningasendingar farandverkamanna til fátækra heimalanda eru meiri en nemur allri þróunaraðstoð. Gengisfall Bandaríkjadals rýrir þessa aðstoð.

Þetta ýtir undir enn eina kreppuna sem er atgervisskortur og –flótti. Vesturlönd draga til sín heilbrigðisstéttir. Botswana, Simbabwe, Mósambik og Malaví búa öll við það að stór hluti heilbrigðismenntaðra landsmanna starfar erlendis. Auknar lífslíkur og öldrunarþjónusta á Vesturlöndum skapa skort á vinnuafli sem þessi ríki útvega sér með því að yfirborga þróunarlöndin.
Á sama tíma fá þróunarríkin útvalin ,,gæluverkefni“ í heilbrigðismálum. Í þessi verkefni eru sett miklu hærri framlög en til grunnþjónustu. ,,Stórátak“ velmeinandi alþjóðastofnana, svo sem til alnæmis, getur því sogað til sín fámennt lið heilbrigðisstétta og hreinlega vegið að grunngerðinni þar sem tekist er á við mæðradauða, öndunarfærasýkingar og niðurgang – sem drepa flesta. Fjöldi lækna í Malaví jafngildir því að á Íslandi væru sex menntaðir læknar. Ríkin sem tapa, tapa alltaf, á hverju sem dynur.

Hvers vegna þróunaraðstoð?

Er það mikið eða lítið að koma framlögum ríku þjóðanna upp í 0,70% af vergri þjóðarframleiðslu? Fæstir sem ekki hafa séð og kynnst fátækt í sinni nöprustu mynd gera sér grein fyrir þeirri mannlegu eymd sem meira en milljarður manna býr við. Í Malaví búa fimm milljónir barna. Ein milljón þeirra er munaðarlaus vegna sjúkdóma og helmingur barna fær ekki fullan vaxtarþroska vegna vannæringar. Dauði af barnsförum er ein algengasta dánarorsök kvenna. Þessu er hægt að breyta. En setja þarf væntingum mörk.


Þær breytingar sem Vesturlönd fóru gegnum frá endurreisn til iðnbyltingar og núverandi síð-iðnvæðingar tóku 500 ár. Samfélagsbylting við þær aðstæður sem nú eru í fátækustu ríkjunum gerist ekki með,,innspýtingu“ á nokkrum áratugum. Markmið slíkrar þróunar getur ekki verið samskonar neyslu- og eyðslumynstur og fólk í ríku löndunum hefur tamið sér og þarf að venja sig af. Eðlilegt markmið er að allar konur geti átt börn án þess að lenda í lífshættu, að börn geti gengið í skóla hvar sem þau búa, og gamalt fólk geti orðið gamalt. Í einu héraði í Malaví búa álíka margir og í Reykjavík. Það kostar Íslendinga 150-200 milljónir króna að útvega 100 þúsund manns vatn og hreinlætisaðstöðu. 1.500-2.000 krónur á íbúa. Þróunaraðstoð þarf því ekki að vera dýr. En skortur á henni er dýrkeyptur.

Til baka
Stefán Jón Hafstein - stefanjon@islandia.is