Hnattving og kreppa


Stiglitz: Vill betri hnattvæðingu

Hvað þýðir heimskreppan 2008 fyrir þá sem telja að hnattvæðing sé á villigötum?  Bandaríski nóbelsverðlaunahafinn Josep Stiglitz hefur skýrar skoðanir á þeim pólitísku úrlausnarefnum sem bíði mannkyns.  Hér er grein um lykilbækur hans tvær sem farið hafa sigurför um heiminn.  Ákall hans um hnattvædda stjórn fjármálamarkaða hljómar nú kröftuglega:

 

Fyrst stuttur inngangur:

G20 hópurinn svokallaði kom saman um helgina 15-16 nóvember 2008 til að ræða nýja skipan hnattvæddra fjármála í kjölfar októberkreppunnar 2008. Rætt var um að fundurinn markaði upphaf nýrra ,,Bretton Woods stofnana” en það reyndist ekki. Evrópuríkin með Breta og Frakka í forsprakki vilja auka hlutverk Alþjóða gjaldeyrissjóðsins í eftirliti með fjármagnsflæði í heiminum, nokkuð sem George W. Bush vill síður, enda ekki búinn að kynja trú á óhefta markaði enn. Auk þess vilja Evrópuríkin að sjóðurinn verði fjármagnaður af fleirum, sem Bandaríkin telja óæskilegt fyrir sig, því þá minnkar hlutfallslegt atkvæðavægi þeirra og ítök í sjóðnum. Í hvorugu efni er líklegt að Bandaríkin ráði. Þau hafa ekki efnahagsleg rök gegn auknu eftirliti, og hafa ekki fjármagn til að leggja á móti framlögum frá Asíu og olíuríkum löndum til að viðhalda veldi sínu. Þá telja margir að hlutverki dollarans sem hin eina sanna heimsmynt sé lokið. Ríki hafa haft alla sína gjaldeyrisvarasjóði í bandarískum ríkisskuldabréfum, sá tími sé nú að renna skeið á enda. Það mun enn frekar veikja forystu Bandaríkjanna á heimsvísu, þau fái ekki lengur fóðrað risavaxinn viðskiptahalla sinn með lánsfé annars staðar frá.

Fundurinn ræddi aukið eftirlit og meiri kröfur til banka um varfærni, en vísaði því til næsta fundar sem verður í apríl 2009, þá með nýjum forseta Bandaríkjanna. En flestir eru á því að bönkum verði gert skylt að safna í digrari varasjóði en hingað til.

Þá vilja menn stilla betur saman aðgerðir en hingað til svo að örva megi efnahaginn á heimsvísu, lækka vexti og ræða sameiginlegar skattalækkanir, en misjöfn staða ríkja leyfir slíkt tæpast.

Nú er viðurkennt að hnattvædd fjármál varða ekki bara G7 ríkin, heldur fá Kína, Indland og Brasilía að leika stórt hlutverk sem vaxandi ríki.

Þessi fundur markaði ekki tímamót að öðru leyti en því að nú er viðurkennt að heimsstjórnmálin eru langt á eftir heimsfjármálakerfinu, að gömlu stofnanirnar ráða ekki lengur við hlutverk sitt og grípa verður til miklu harðari aðgerða á heimsvísu eigi að bjarga fjármálamörkuðum og stofnunum.

Það sem helst má ráða af þessum fundi er að forræði Bandaríkjanna, bæði hugmyndafræðilegt og fjárhagslegt er á hröðu undanhaldi. Krafan um nýja skipan heimsmála fær allt í einu vægi, með hnattvæddri kreppu þurfi hnattvæddar lausnir. Það er svo tímanna tákn að Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn talar um að hann sé nú ,,félagslegra sinnaðri” en áður, til að slá á ótta þeirra ríkja sem nú eru í biðröð eftir aðstoð, þar á meðal Ísland.

Hnattvæðing efnahagsmála stefnir því á nýtt stig alþjóðlegrar samvinnu til að verjast heimskreppukapítalisma.

 

Stiglitz og vonin í hnattvæðingu


Stefán Jón Hafstein.
Greinin er hér sem word skjal.Heimskreppan sem skall á í október 2008 hefur að minnsta kosti leitt eitt gott af sér: Tillögur og gagnrýni Joseph Stiglitz nóbelsverðlaunahafa í hagfræði um hnattvæðingu hafa enn meiri skírskotun en áður. Alþjóðlegar fjármálastofnanir og þjóðarleiðtogar hafa í raun fallist á meginröksemd hans. Að hnatttvæðing sé svo mikilvæg í lífi þorra mannkyns að kalli á heimspólitískar lausnir. Viðbrögð við bankahruninu í október 2008 sanna þetta. Hrunið var afleiðing af samþættu alþjóðlegu fjármálakerfi sem hafði þanist eftirlitslaust út með áhættusömum fjárfestingum og skuldavafningum. Eins og Stiglitz hafði löngu sagt kom í ljós að hnattvætt efnahagskerfi kallar á hnattvædd stjórnmál. Veröldin er samofin hagsmunum sem eru miklu stærri en eitthver eitt ríki ráði við. Og hafi einhver dregið í efa niðurstöður hans um að markaðurinn einn og sér ráði ekki við þetta verkefni hefur október 2008 sannað annað. Ákall um stjórn, eftirlit og lausnir í þágu mannkyns alls á nú við frekar en nokkru sinni fyrr. Hnattvæðing kreppukapítalisma kallar á hnattvæddar lausnir.

Hér verður fjallað um tvö höfuðrit Stiglitz (2003, 2007) um hnattvæðingu: ,,Globalization and its Discontents" og ,,Making Globalization Work" og röksemdafærslan í þeim könnuð með vísunum í fræðirit um sambærileg málefni. Meginefnið í fyrri hluta er gagnrýni á alþjóðlegar stofnanir og hnattvætt fjármála- og viðskiptakerfi, og í síðari hluta fjallað um tillögur Stiglitz um úrbætur.

Hvað er hnattvæðing?

Hnattvæðing hófst fyrir 500 árum með landafundum og nýlendutíma, hún skipti um svip fyrir 50 árum þegar hún tók sér yfirheitið ,,þróun" og hefur síðustu fimmtán ár verið rekin undir merkjum nýfrjálshyggju og markaðsvæðingar á heimsvísu. Stiglitz (2003) skilgreinir hana svo: ,,Í grundvallaratriðum er hnattvæðing nánari samþætting landa og þjóða heimsins með stiglækkandi kostnaði við flutninga og samskipti, með afnámi hafta á flæði vöru, þjónustu, fjármagns og þekkingar, og ...með auknum hreyfanleika fólks milli landa. Hnattvæðingu hafa fylgt nýjar stofnanir sem starfa með gamalgrónum þvert á landamæri" (bls. 9).

Höfundurinn telur hnattvæðingu gefa mannkyni von, en fer ekki ítarlega út í hvers vegna. Hann svarar gagnrýnendum á þá lund að hnattvæðing þurfi ekki að vera slæm fyrir umhverfi, auka ójöfnuð, minnka menningarlega fjölbreytni eða ganga á lífsgæði. Þvert á móti. Eingrun sé rofin, verslun auki hagvöxt og fækki fátækum, hægt sé að stilla saman strengi til að vinna að friði, verndun umhverfisverðmæta og gefa fleirum en áður kost á öryggi, heilsugæslu og menntun. Meira að segja er hin hnattræna hreyfing sem mótmælir hnattvæðingu sjálf beint afsprengi þeirra möguleika sem hún feli í sér, með lýðræðislegri andstöðu og samvinnu um heim allan. Í raun sé verkefnið að bjarga hnattvæðingunni frá þeim sem hingað til hafa klúðrað möguleikunum sem í henni felast. Þar er hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar efst á blaði með ríkjum og stofnunum sem ganga erinda hennar.

Stiglitz rekur hve sundurgerður hópurinn er sem berst gegn hnattvæðingu. Og eins og sjá má af t.d. kortlagningu Starr (2005) er þetta rétt að því leyti að andstöðuhreyfingar spretta úr ýmsum áttum. Hóparnir eru sundurleitir og mótast af ólíkum viðbrögðum við ólíkum birtingarmyndum hnattvæðingar. En Stiglitz er fyrst og fremst hagfræðingur hinna stóru strauma og fjallar ekki í smáatriðum um störf og viðhorf þeirra sem andæfa hnattvæðingu þótt hann lýsi skilningi á viðhorfum þeirra. Hann telur mótmælendur hafa rétt fyrir sér með því að alþjóðlegar stofnanir og fyrirkomulag í verslun og fjármálum sé stórskaðlegt. Mótmælin séu skiljanleg, en betra væri að berjast fyrir möguleikum sem hnattvæðing felur í sér en gegn henni. Stiglitz (2007) segir: ,,Hnattvæðing er vettvangur fyrir félagsleg og pólitísk átök, þar á meðal grunngildi í samfélagi. Mikilvægasta viðfangsefnið þar á meðal er hlutverk markaða annars vegar og stjórnvalda hins vegar" (bls.xiv).

Pólitískt úrlausnarefni

Októberkreppan 2008 sýnir að samfélagsgæði eru ekki viðskipalegt heldur pólitískt viðfagnsefni. En það vissi höfundurinn áður en kreppan skall á. Sjálfréttingarbúnaður markaðarins virkar ekki nú frekar en 1929 þegar Keynes setti fram hagfræðikenningar um pólitíska íhlutun til að bjarga auðvaldskerfinu.
Úrbætur í málefnum sem hnattvæðing kalla yfir jörðina er því ekki hagfræðileg aðferð, heldur pólitísk - segir hagfræðingurinn. Rauði þráðurinn í bókunum tveimur er að nýfrjálshyggjan hafi verið hugmyndafræðilegt valdbeitingartæki ríku þjóðanna - og einkum Bandaríkjanna - til að viðhalda eigin hagsmunum í hinu alþjóðlega kerfi. Þessi misnotkun hafi farið fram í gegnum Bretton Woods stofnanirnar, Alþjóða viðskipta- og verslunaráðið (WTO) og gagnast fyrst og fremst fjölþjóðlegum samsteypum með heimahöfn í ríku löndunum. Aðeins þau þróunarríki sem hafi farið aðrar leiðir en þessar stofnanir beita sér fyrir hafi náð árangri, svo sem í Asíu. Önnur, eins og í Suður- Ameríku og Afríku, goldið dýru verði. Nú sé kominn tími til að stýra markaðsöflunum í þágu þróunar um allan heim, en ekki láta þau leika lausum hala með afleiðingum sem eru geigvænlegri en nokkru sinni fyrr í reglubundnu kreppuverki kapítalismans.

Hvað er þróun?

,,Þróun snýst um að breyta samfélagi en ekki bara hagkerfi" segir Stiglitz (2007). Hann vitnar í Amartya Sen til að undirstrika sjálfseflingu og frelsi einstaklinga og hópa, en ekki bara viðskiptafrelsi (bls 50). Amartya Sen (1999) færir sterk rök fyrir því sama og Stiglitz, kapítalisminn snýst um framleiðslu og sölu segir Sen, samfélag snýst um velferð, frelsi og getuna til að innleiða félagslegar breytingar og þróun (bls. 296). Þótt Stilitz sé sama sinnis um mannlega þáttinn er það samt ekki meginstyrkur í röksemdafræslu hans. Hann víkur að gildi menntunar, gildi samfélagsverkefna á grasrótarstigi, og mikilvægi góðra stjórnunarhátta með opinberri stjórnsýslu; og hann telur aðal áskorun hnattvæðingar varða lýðræði og gildismat (bls. 132). En meginkjarni í máli Stiglitz (2007) er ekki þessi. Höfuðröksemdir hans í bókunum báðum er gagnrýni á alþjóðlegar stofnanir og fjármálakerfi. Tillögur hans til úrbóta varða einkum þær.

Gagnrýni á alþjóðlegar stofnanir

Stiglitz telur að alþjóðlegar fjármálastofnanir, og skipulag fjármálakerfa dugi ekki til að knýja fram almennar úrbætur fyrir fátæku löndin. Í raun viðhalda þær óréttlætinu í þágu þeirra ríku. Sýnt er fram á að hugmyndafræðilegt, efnahagslegt og pólitískt forræði í núverandi skipan liggi hjá þeim auðugu. Höfuðleikendur í hinu hnattræna fjármála- og viðskiptakerfi eru Alþjóðabankinn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (kenndir við Bretton Woods) sem saman mynda stofnanahluta hins alþjóðlega fjármálakerfis; Viðskipta og verslunarráðið (WTO); ásamt fjölþjóðlegum fyrirtækjasamsteypum.

Alþjóðabankinn og Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn (IMF)

Yfirlýst hlutverk Alþjóðabankans er að vinna gegn fátækt í heiminum. Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn á að vera björgunarsveit í gjaldeyrismálum þegar annað brestur og lána þeim sem komast í mikil vændræði til að bægja burt kreppum. Grunnhugmyndin að alþjóðlegu kerfi á þessum nótum er góð og gild að mati Stiglitz sem skilgreinir Bankann sem stofnun sem vinnur í þágu bættra viðskipta; greiðir fyrir lánamöguleikum og fjárfestingum og býður fram sérfræðiráðgjöf; samstillir þróunaraðgeðir í fátækum löndum og nýtir kosti stærðarinnar í þágu hinna smæstu. Bankinn veitir lán á hagstæðum kjörum í krafti stærðar, eða víkjandi lán og styrki. En hann sé reyndar ekki ópólitísk, fagleg stofnun eins og til var stofnað, hugmyndinni hafi verið spillt.


Eins og aðrir höfundar bendir Stiglitz á að valdahlutföll í Alþjóðabankanum endurspegla efnahagslegan styrk þeirra sem standa að honum. Það þýðir að stærsta hagkerfi heims, Bandaríkin, hafa gríðarlegt vægi innan bankans. Sama á við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn (IMF) sem lýtur algjörlega vestrænu forræði - sem er pólitískt og hugmyndafræðilegt.
Bankanum er ætlað að aðstoða við að þróa og breyta samfélögum til betri vegar, en gerir það eftir einni leið, samkvæmt kenningum um frjálst markaðskerfi. Samkvæmt gagnrýnendum Bankans er stór þversögn í starfi hans. Nelson (1995) lýsir þessu svo: Bankinn yfirfærir frjálst markaðskerfi á lönd þar sem forsendur skortir fyrir að lausnin virki. Fordæmi Vesturlanda á að gilda um öll lönd, hversu ólík innbyrðis sem þau eru, og misvel á vegi stödd til að taka upp þróað markaðskerfi. Í mörgum þróunarlöndum vantar mannauð, þekkingu, lagalegt umhverfi, fjölbreytni í efnahagsumhverfi og öflugar opinberar stofnanir. Á Vesturlöndum gera þessir innviðir markaði fært að vinna ætlunarverk sitt. Nelson (1995) telur að það sem Bankinn segist ætla að koma til leiðar sé í raun forsenda fyrir því að honum takist vel upp í þróunaraðstoð. Þetta er mjög í anda kenninga Hernando de Soto (2001) sem fjallar ítarlega um hvers vegna kapítalismi virkar ekki eins og honum er ætlað í þróunarlöndum þar sem lagalega umgjörð og hefðir skortir. Stiglitz (2007) er sammála hvað þetta varðar, og bætir við að hagvöxtur sem mælikvarði á árangur sé ofureinföldun. Forskriftin taki ekki til jöfnuðar, mannréttinda, umhverfis, félagslegra þátta eða annars sem flest fólk myndi telja til lífskjara. Hann bætir um betur og leggur mikla áherslu á lýðræðishallann í starfsemi Bankans. Ekki bara að forræði Bandaríkjanna sé of sterkt. Viðtökuþjóðir forskriftar bankans fái ekki að afla umbótum lýðræðislegs fylgis. Lýðræðislegt umboð skortir því. Mannlegt samfélag, með kostum og göllum, er miklu flóknara og erfiðara fyrirbrigði en einfalt viðskiptamódel. Því lenda aðgerðir og kröfur bankans hvað eftir annað í pólitískum og samfélagslegum sviptivindum.
Alþjóðabankinn leitast líka við aðbúa til hnattrænt kerfi viðskipta og fjárfestinga þar sem hvert ríki hefur ,,hlutverk" í alþjóðlegri verkaskiptingu. Nelson (1995) sýnir fram á að sýn bankans á alþjóðlegt hnattvætt viðskiptaumhverfi er einfeldningsleg. Ríki eiga að keppa, en sum hafa forskot, og þau sem síðast koma til leiks hafa enga möguleika. Leið Bankans í þeim dæmum er oft sú sem Stiglitz nefnir ,,kapphlaup á botninn": Lækkið laun, lækkið auðlindagjald, setjið ekki reglur fyrir umhverfi eða mannréttindi, reynið að flytja út ódýrar vörur og klekkja á samkeppnislöndum. Þetta eru skilyrði sem ríku löndin sjálf myndu aldrei innleiða ótilneydd. Þau uxu sjálf að afli við allt aðrar aðstæður og verndaðri en þau vilja leyfa þróunarlöndum að njóta.
Ítarleg og umfangsmikil gangrýni Stiglitz (2003) á Alþjóða gjaldeyrissjóðin er sams konar. Blind trú á markaðslögmálin hefur hert á hverri kreppunni á fætur annarri og leitt þrengingar yfir lönd sem þurfa að beyja sig undir hagræðingarvald sjóðsins (bls 195- 213). Hann rekur margvísleg hagstjórnarmistök sem þröngvað var upp á viðtakendur í Asíu og austur Evrópu með sársaukafullum afleiðingum. Á meðan hafi önnur lönd, sem hafna leiðum IMF, náð að skjóta stoðum undir iðngreinar og hagkerfi sem nú blómstra. Víetnam, Kína og Indland eru dæmi. Þar er hann á sömu slóðum og annar þekktur haggræðingur, Bhagwati (2001) sem telur kenninguna algjörlega ranga um að frjálst flæði fjármagns virki sem hvati á þróun í vanbúnum ríkjum (bls. 199-207).

Alþjóða viðskipta- og verslunarráðið (WTO)

Doha viðræðuhrinan innan WTO átti að greiða úr vanda þróunarlanda í verslun, en lauk nýlega án árangurs. Þar blasir við sams konar ,,eignarhaldsvandi" og innan Alþjóðabankans og gjaldeyrissjóðsins. Forræði stærstu framleiðsluríkjanna vex öðrum yfir höfuð. Grundvallarhugmyndafræðin er hér gild líka: Flest ríki heims koma sér saman um að óheft verslun komi þeim til góða, og mismunun sé slæm. Þau leita hins vegar stöðugt leiða til aðkoma sér hjá því að taka á sig skell vegna lélegrar samkeppnisstöðu á einu sviði, en sækja fram í nafni frelsis þar sem þau hafa yfirburði. Þau sterkustu hafa betur í þeirri keppni: Bandaríkin og Evrópusambandið greiða niður landbúnað sinn sem nemur hærri upphæðum en heildarframlögum til þróunarmála í heiminum. Á liðnum árum hefur þessi aðferð fleytt ódýrum matvælum yfir á heimsmarkað með þeim afleiðingum sem nú má sjá í matvælakreppu í fátækum löndum. Að áeggjan Alþjóðabankans færðu þau sig frá því að framleiða mat og fluttu hann inn til að fullnægja kröfunni um ,,alþjóðlega verkaskiptingu". Nú eru þau vanbúin að framleiða sjálf, þegar heimsmarkaðsverð rýkur upp og hafa ekki efni á innflutningi. Stiglitz (2007) gengur á svig við helstu postula frjálsrar verslunar þegar hann segir kosti hennar muni ekki nýtast nema ,,þekkingarmunurinn" í ríkum og fátækum löndum minnki. Það gerist best í skjóli hæfilegrar verndar og forréttinda í þágu þeirra veiku (bls. 70- 71). Hann vill því að fátæk ríki njóti forréttinda í verslun og fái að vernda sprotagreinar.
Greining Oatleys (2008) á WTO styður margt af því sem Stiglitz segir. Ríku löndin beiti einhvers konar hömlum sér í hag á meðan þau komast upp með það. Æ fleiri ríki kjósa að fara þá leið að mynda svæðisbandalög um verslun, sem leyfir þeim formlega mismunum gagnvart öðrum. Þetta er leið til að komast hjá grundvallarreglunni um að mismuna engum. Þetta er svar við því að með fleiri aðildarríkjum að WTO og flóknari hagsmunaárekstrum fá þau sjónarmið aukið vægi sem vilja tefla fram félagslegum markmiðum til jafns við viðskiptaleg. Svæðisbundin viðskiptasambönd einfalda ferlið með því að fækka þátttakendum. Þau gefa ríkum þjóðum færi á að útfæra yfirráðastefnu sína. Undir þessa greiningu Oatleys tekur Stiglitz (2003) og vill meina að svæðasamningar séu ekki bara leið til að komast undan almennum reglum, heldur líka aðferð þeirrra ríku til að þjarma að þeim fátæku. Hann nefnir Bandaríkin í samstarfi við Mexíkó innan NAFTA þeirri andrá. Spurning um frjálsa verslun sé röng, hún sé um sanngjarna verslun, sem leyfi þeim fátæku að komast í álnir með sama hætti og ríku löndin gerðu.

Fjölþjóðlegar fyrirtækjasamsteypur

Á sama hátt og efnahagsmál og pólitík takast á í sambandi við Bretton Woods stofnanirnar og WTO eru átök um fjölþjóðleg fyrirtæki. Þau vega gríðarlega þungt í heimsframleiðslu og - viðskiptum, og hafa vaxið mjög að vægi undanfarna áratugi, upp í 10% af vergri heimsframleiðslu. Stiglitz (2003) telur fjölþjóðlegar samsteypur ,,þungamiðjuna" í hnattvæðingu (bls. 188).

Ástæðan er ljós að mati Oatleys (2008). Fyrirtækin nýta sér ýmsa kosti í fjölþjóðlegu skipulagi. Mörg hafa stærri efnahag en stöndug ríki. Með því ná þau samskeppnisforskoti í krafti hagræðingar og skipulags sem felst í að þau búa sér til eigið innra viðskiptanet. Sala á milli eigin eininga þvert á landamæri skapar þeim hagnað. Lang flest fyrirtækjanna eiga heimavöll í ríku löndunum, en hasla sé framleiðslu- og viðskiptavöll í gistiríkjum Þriðja heimsins. Hann telur líkt og Stiglitz að vaxandi iðnveldi og flest þróunarlönd hafa hag af samskiptum við fjölþjóðleg fyrirtæki. Þau fá flutt inn fjármagn, þekkingu, störf skapist, markaðir fyrir innlendar vörur opnist (til að þjónusta stórfyrirtækið) og hugsanlega myndast viðskiptanet út í heim.
En Oatley (2008) telur að hnattrænir viðskiptalegir hagsmunir fyrirtækjanna lendi oft í andstöðu við staðbundna hagsmuni einstakra ríkja, og er þar samsinna Stiglitz (2007). Oatley segir að fyrir ávinnig komi ákveðinn kostnaður: Ruðningsáhrif á heimamarkaði, einræði viðskiptarisa yfir auðlindum og óhagkvæm viðskipti við stórveldi sem setji sjálft verð á sölu milli eigin eininga. Stiglitz (2003) leggur meiri áherslu en Oatley á pólitísk afskipti, spillingu, mútuþægni og arðrán (með of lágu auðlindagjaldi) í starfi fjölþjóðlegra fyrirtækja. Að kalla þau til ,,félagslegarar ábyrgðar" hafi ekkert upp á sig í raun. Valdboð frá alþjóðlegu stjórnvaldi þurfi að koma til ásamt viðskiptarefsingum fyrir slæma hegðan. Hann er þar á sama báti og harðir gagnrýnendur ,,félagslegrar ábyrgðar” stórfyrirtækja, eins og Christina og Jacobson (2007) sem telja hana hreint yfirvarp.

Stiglitz kallar eftir regluverki, en gefur því minni gaum en Oatley að tilraunir til að koma alþjóðlegri reglu á fjárfestingar í þróunarlöndum hafi reyndar mistekist. Áhugi á slíkum reglum er miklu minni í ríku löndunum en þróunarlöndum vegna þess að þau fyrrnefndu eru bæði gisti- og heimaríki margra fyrirtækja, meðan þróunarlöndin eru ofast aðeins gistiríki. Alveg eins og í dæmunum um Alþjóðabankann og WTO í Doha viðræðunum liggur forræðið hjá þeim sem hafa minni hag af því að breyta ástandinu.
Í þessu ljósi verða tillögur Stiglitz (2007) um miklu ríkara aðhald á fyrirtækin að skoðast sem hluti af miklu víðtækara alþjóðlegu eftirliti.

Hnattrænt fjármálakerfi

Fjórði þátturinn í því kerfi sem saman myndar hið hnattræna fjármála og viðskiptakerfi er frjálst flæði fjármagns. Stiglitz veltir þessum þætti mun dýpra fyrir sér en margir þeirra sem gagnrýna alþjóðastofnanirnar, enda sést honum ekki yfir að þarna er um að ræða miklu stærri upphæðir en í hinum formlegu stofnanakerfum.
Októberkreppan er ekki sú fyrsta, heldur sú dýpsta í áratugi. Stiglitz telur 100 fjármálakreppur á liðnum áratugum, dýpstar og erfiðastar voru suð-austur Asíukreppan 1997 og austur- Evrópukreppan um svipað leyti. Uppskriftin er fremur einföld: Veikir gjaldmiðlar standa berskjaldaðir þegar skuldsett ríki og/eða einkafyrirtæki og fjárfestingabólur hafa gert þau að skotspæni spákaupmanna eða lánsfjárþurrðarr. Ísland upplifir slíkt núna. Eins og sjá má af Íslandi eru varnaraðgerðir slíkra landa á óheftum alþjóðlegum fjármálamarkaði annað hvort ómögulegar, eða rándýrar. Þau neyðast til að setja ógnvænlegar upphæðir í varasjóði (það gerði Ísland ekki) til að sporna við gjaldeyrisáhlaupum og sveiflum sem ganga að heimamörkuðum og framleiðslufyrirtækjum dauðum. Bandaríkin soga til sín þessa varasjóði til að fjármagna gríðarlegan viðskiptahalla. Þetta er ójafn leikur: Ríki leggur stórar upphæðir í gjaldeyrisvarasjóð og kaupir ríkisskuldabréf í Bandaríkjunum því bréfin eru talin trygg og alltaf seljanleg. Bréfin eru á mjög lágum vöxtum, en viðkomandi ríki er þarna með tryggingu fyrir sveiflum og áhlaupum. Til að fjármagna fjárfestingar, þróunarverkefni og velferð taka þau svo lán, stundum hjá alþjóðlegum stofnunum og stundum á fjármálamörkuðum, en alltaf á mun hærri vöxtum en fást fyrir gjaldeyrisvarasjóðinn. Þannig skapast vaxtamunur sem einkum Bandaríkin hirða. Þennan vaxtamun metur Stiglitz (2007) fjórum sinnum meiri en nemur heildar þróunaraðstoð í heiminum (bls. 249). Hann telur að hagkerfi heimsins geymi þetta illa nýtta fé í sjóðum sem nema 4.5 þúsund milljörðum. Á hverju ári sogist 750 milljarðar dollara út úr efnahagslífi þróunarlanda, sem ella gæti farið í að halda uppi spurn eftir vörum, þjónustu og menntun (bls. 251). Til samanburðar nemur alþjóðleg þróunaraðstoð 100 milljörðum dollara á ári, eða minna en 1/7 af frásoginu í gjaldeyriskerfið.
Þetta er meðal annars ástæðan fyrir því að íslenska hagkerfið hrundi. Kostnaðurinn við að verja gjaldeyrissjóð sem dugði fyrir krónunni og bönkunum var einfaldlega óviðráðanlegur. Fæst lönd glíma við svo mikla óráðssíu, en flest þurfa að gera ráð fyrir einhverjum ráðstöfunum af þessu tagi. Kaupa sér tryggingu, því geigvænlegur innbyggður óstöðugleiki í fjármálakerfi heimsins kallar á slíkt. Nýlegt dæmi af Íslandi sýnir hvað gerist ef það er ekki gert.

Leiðin fram á við

Hugmyndir Stiglitz um skref út úr þessu óréttláta kerfi heimsviðskipta og fjármála eru í grófum dráttum af tvennum toga. Pólitíska lausnir krefjast þess að þeir sem hafa völdin gefi þau eftir. Verklegar lausnir varðandi tiltekin atriði gætu svo farið langt með að leiðrétta ójöfnuð í hnattvæddu kerfi. Stiglitz lítur svo á að hnattrænn vöxtur viðskipta- og fjármálakerfa hafi farið alltof langt fram úr pólitísku hnattrænu valdi. Hagrænar afleiðingar af hnattvæðingu fjármála og viðskipta hafi orðið flestum ofviða á stjórnmálasviðinu. Þar skorti skilning á öllu því helsta sem einkennir hnattvæðingu, og þar með getu og vilja til að lagfæra þegar á reynir. Allt hljómar þetta kunnuglega í dag.
Vandi stjórnmála er að mati höfundarins að þau eru í eðli sínu staðbundin. Til að hljóta kosningu þurfi frambjóðendur að höfða til smárra sértækra hagsmuna heimafyrir, en ekki hins hnattræna veruleika. Þrír möguleikar séu í stöðunni. Í fyrsta lagi gera ekki neitt, láta ójöfnuð og fátækt aukast og vona að kenningin um brauðmolana af borðum herrana rætist einhvern tíman. Hitt er að Bandaríkin og Evrópa girði sig af innan eigin múra og forréttinda, neiti að breyta. Þriðji möguleikinn sé að endurmóta hnattvæðingu, gefa upp á nýtt. Þann kost velur höfundur.

Alþjóðleg stjórnmál

Krafan um að gefa upp á nýtt byggist á tvennu til viðbóta við fátæktina í stórum hluta heimsins: Fyrst þeim lýðræðishalla sem birtist í staðbundnum stjórnmálum sem taka ekki á hnattrænum vanda, og svo í hagfræðiveruleika sem varðar ,,almenn gæði" á veraldarvísu. Deilan um ,,almenn gæði" (public goods) hefur verið uppi síðan í árdaga kapítalisma. Almenn gæði eru vatn, fiskimið, loft - eða beitarlönd hvers konar sem enginn á. Allir geta gengið á auðlindina án kostnaðar fyrir sig, en sameiginlegi kostnaðurinn er mikill. Þarna bendir Stiglitz á lofthjúpinn, regnskóga sem sameiginlega auðlind mannkyns til að binda kolefni, og fiskistofna í úthöfum. Allt kalli þetta á hnattrænar aðgerðir, þar sem áður var talið að ríkisvaldið eitt gæti leyst úr. Það má því sjá að í þeirri heimsmynd sem höfundurinn smíðar blasir við, ekki bara gríðarlegur ójöfnuður og arðrán gegnum alþjóðlega fjármálakerfið, heldur stórhætta fyrir mannkyn allt vegna þess hve lýðræði í heiminum er valt gagnvart auðvaldi.

Lýðræði

Það merkilega við Stiglitz er að eftir vægðarlausa gagnrýni á Bretton Woods stofnanirnar og heimsverslunarkerfið telur hann í raun að stofnanirnar séu ekki gallaðar. Heldur það ,,hugarfar" (mind set) sem ræður þeim. Hann vill dreifa valdi inna alþjóðlegra stofnana, draga úr forræði Bandaríkjanna og Evrópu. Vandamálið við slíkar tillögur er augljóst. Þær draga úr völdum þeirra sem hafa þau og hingað til ekki viljað gefa neitt eftir, eins og Stiglitz sjálfur sannar svo eftirminnilega. Þeir sem ráða ferð ráða líka peningunum sem á að verja til þróunarmála, til að aflétta skuldum, veita hagstæðari fyrirgreiðslu og þurfa sjálfir að taka á sig skell af sanngjarnari verslun.

Það er því gegnumgangndi mótsögn í báðum bókum Stiglitz (2003, 2007). Það má segja að hin sannfærandi gagnrýni hans á núverandi skipan og ástæður hennar séu um leið helstu rökin gegn ábendingum hans um úrbætur. Auðvaldið er hnattrænt, ríkjavaldið staðbundið. Það litla sem til er af hnattvæddu stjórnvaldi lýtur forræði hinna valdamiklu sem mestu tapa ef umbætur á ,,hugarfari" komast á. Hvaðan ættu þær umbætur að koma? Þeirri spurningu svarar höfundurinn illa eða alls ekki. Hann fjallar til dæmis lítt eða ekki um Sameinuðu þjóðirnar, sem eru þó eina stóra tilraunin til að koma á hnattrænni stjórn. Hann nefnir mjög stuttlega möguleikann á því að koma á ,,efnahagslegu öryggisráði" S.þ. sem í ljósi nýjustu viðburða væri einkar áhugavert. En áhuginn minnkar þó ef maður rifjar upp að Öryggisráðið sjálft er í greipum neitunarvalds fárra ríkja. Greining á getu og getuleysi S.þ. í þessu hnattræna samhengi væri einkar áhugaverð, því þar er jú eina tilraunin sem gerð hefur verið með hnattræn stjórnmál. Höfundurinn fer því framhjá þeim möguleika sem óhjákvæmilega vaknar spurning um: Er mögulegt að gera S.þ. að því alþjóðavaldi (global governance) sem hann kallar svo mjög eftir? Annan vettvang fyrir lýðræðislegar umbætur á heimsvísu sér maður einfaldlega ekki meðal alþjóðlegra stofnana. Ákallið um ,,global social contract" (bls. 285) er því í raun fánýtt, nema það þýði einhvers konar sterkari Sameinaðar þjóðir. Hvað annað gæti slíkt ákall þýtt?

Þetta er því stóra brotalömin í málflutningi Stiglitz (2007) og sú sem dregur hve mest úr annars áhrifamiklum málflutningi. Það er ekki að tillögur skorti (bls. 269- 292), heldur vantar skýringu á því hvers vegna og hvernig þær gætu náð fram við núverandi skipan heimsmála.
Það er því stór spurning í ljósi hins margumrædda forræðis ríku landanna hvort tillögur um að breyta valdahlutföllum séu rauhæfar. Hvernig ætti að gera það, hverjir ættu að gera það? Í þessum efnum er Stiglitz hvatmaður um breytta stjórn fjármálaheimskerfis, en ef til vill ekki raunsæismaður. Krafan um breytt hugarfar verður ekki fram borin til árangurs nema með einhvers konar þvingun (sanction). Hvert er þvingunarvald fátæku landanna? Sagan sýnir að það er ákaflega lítið. Ekki síst af því að Stiglitz hefur rétt fyrir sér um annað: Það er vitlaust gefið.

Dæmi um raunhæfar úrbætur

Því er hins vegar ekki að neita að höfundurinn leitast við að benda á margt sem - mætti ekki aðeins betur fara - heldur hvernig mætti fara að því. Áhugaverð er til dæmis hugmynd um nýtt gjaldeyrismiðlunarkerfi til að tryggja varasjóði og flæði fjármagns án þeirra miklu sveiflna sem nú boða hverja kreppuna á fætur annarri. Eftir október 2008 ættu jafnvel hörðustu frjálshyggjumenn sem Stiglitz gagnrýnir að velta fyrir sér slíkum möguleika (bls. 245-292).
Um fjölþjóðlegar samsteypur hefur hann margar hugmyndir sem eiga það sameiginlegt að fela í sér þvinganir á þær til að fara að lögum, réttu siðferði og greiða eðlilegt verð fyrir auðlindanýtingu (bls 197-210). Margt af því hefur þann kost að hafa verið innleitt í ríku löndunum (reglur um gagnsæi, gegn spillingu, uppboð á auðlindum), og er því erfitt að andæfa. Þá einnig að lögsækja megi brjóta yfir landamæri, að samhæfa reglur um gjaldþrot og sakhæfi til að fátæku ríkin hafi sömu þvinganir og tíðast á Vesturlöndum.
Einföld og framkvæmanleg tillaga til að berjast gegn hnattrænni hlýnun er að verðmeta gildi regnskóga með ,,bindingarkvótum" sem yrðu eign viðkomandi ríkja. Gallinn við núverandi hugsun er að lofthjúpurinn er aðeins að hluta verndaður með losunarkvótum. Og byltingarkennd en ótrúlega einföld er hugmynd Stiglitz um að öll ríki heims sameinist gegn Bandaríkjunum í loftslagsmálum. Þau eru nálægt því að ná víðtæku samkomulagi um losunarkvóta og verðmeta þá. Með því að gera það án þátttöku Bandaríkjanna gætu þau sett viðskiptahömlur á bandarísk framleiðslufyrirtæki á þeim forsendum að þau fái niðurgreiðslur í formi ókeypis mengunarréttar sem aðrir njóti ekki.
Stiglitz telur að ríki sem eiga mikið af náttúruauðævum ættu að fá styrki og aðstoð til koma þeim í sem best verð með útboðum eða sölu á nýtingarrétti - og gagnsæisregla á heimsvísu verði að gilda um alla. Þetta myndi gjörbreyta stöðu spilltra einræðisherra og viðsemjenda þeirra um að ræna heilu ríkin auðævum sínum.
Því eru þessi dæmi rakin, og þau gætu verið fleiri, að þau lúta einföldum rökum, og ættu að nást í gegn með meirihlutaákvörðunum stofnana og samtaka sem nú þegar eru til staðar.

Tillögurnar hafa að vísu ekki það markmið að raska valdahlutföllum í heiminum endanlega þeim fátæku í vil, en þær eru framkvæmanlegar og röklegar í því samhengi sem alþjóðafyrirtæki og ríkjasamtök starfa. Þessar verklegu tillögur Stiglitz hafa því mun raunhæfara yfirbragð en ákall hans um hugarfarsbreytingu í valdablokkum heimsins.

Mannlegi þátturinn

Hugmyndir sem Stiglitz setur fram eru allar mótaðar af því sem hann kallar að ná fram kostum hnattvæðingar (making globalization work). Höfundurinn er markverður gagnrýnandi á núverandi kerfi, og fæstir þeirra sem nú gagnrýna hnattvæðingu og berjast gegn henni gætu lagst gegn hugmyndum hans. Margar eru reyndar sameign fjölda gagnrýnenda hnattvæðingar eins og sjá má af yfirferð Starr (2005) um málefni andstöðuhreyfinga. Kosturinn við Stiglitz er hin víða sýn hans, og vilji til að gefa efnahagsumfjöllun og hagfræðilegum úrlausnarefnum mannlega vídd.

Þótt hann setji ákallið um lýðræðisvæðingu heimsmála á oddinn í tillögum sínum er það ekki vel skilgreint og útfært. Hugsanlega hafa hinar fjölmörgu og sundurleitu hreyfingar gegn hnattvæðingu betra svar en hann. Að lýðræðisleg vakning og umbætur komi að neðan og upp. Vonlaust sé að bíða breytinga að ofan. Dæmi um það er hvernig World Social Forum hefur leitast við að ná bandalögum andspyrnuhreyfinga, eins og Starr (2005) lýsir. Þeir mörgu og ólíku grasrótarhugsuðir eru þó áreiðanlega í sumu jafn óraunsæir og Stiglitz kann að vera þegar þeir óska ,,samstöðu um allan heim" gegn hnattvæðingu. Sjónarhorn Stiglitz er eins og að líta á heiminn gegnum gleiðlinsu. Aðrir hagfræðingar hafa farið gjörólíkar leiðir. Jeffrey Sachs (2005) sem gert hefur sig gildandi gegnum Earth Institute lýsir m.a. þeirri leið sem hann telur vænlega, að leiða fram efnahagslegar umbætur gegnum ,,Þúsaldarþorpin". Fátæk smáþorp í Þriðja heiminum fái fjárstuðning við umbætur. Þetta verkefni breiðist svo um allan fátæka hluta heimsins og verði að allsherjar umbótum með efnahagsúrræðum neðan frá. Hann fer framhjá stóru stofnunum. Margt er gagnrýnt við tillögur Sachs, svo sem hvort svona innspýting að neðan sé sjálfbær. Annar hagfræðimenntaður maður, nóbelsverðlaunahafi líka, Mohammad Yunus (2008), telur að smálánastarfsemi geti orðið sá efnahagshvati sem valdi byltingu í fátæka heiminum. Sjónarhorn Sachs og Yunusar eru gjörólík þeim sem Stiglitz beitir. Hann sér hnattvæðingu ofan frá og gegnum umbætur á núverandi stofnunum og fyrirkomulagi, meðan Sachs og Yunus horfa á hin smáa gróður sem vaxi hægt á móti ljósinu. Margar grasrótarhreyfingarnar sem berjast gegn hnattvæðinu eru á svipuðum nótum um lýðræði, að það vaxi frá fólkinu sjálfu, hægt og bítandi, í allri sinni fjölbreytni og flóru sem er margfalt litskrúðugri en stofnanir og gjaldeyrismarkaðir gera ráð fyrir. En að slík grasrótaráhersla sé allsherjarlausn er nokkuð sem maður efast um eftir að hafa lesið Stiglitz. Fjármála- og verslunarkerfið með stofnunum sínum og aðferðum heimsvaldastjórnmála hætta ekki að vera til á meðan lýðræði sprettur upp neðan frá. Hvorugt sjónarhorn er rangt. Hvorugt nægilegt eitt og sér.

Heimildir

Bhagwati, J. 2004. In Defense of Globalization. New York,
Oxford University Press.

Carsten, Christina, og Jacobson, Kerstin (2007). Coporate Globalization, Civil Society and Post-political Regulation – Whither democracy? Development dialogue no. 49: 143-153.

Nelson, Paul J. 1995. The World Bank takes center stage. World Bank and Non- Governmental Organizations: the Limits of Apolitical Development.
London: MacMillan Press Ltd.

Oatley, Thomas. 2008. The World Trade Organization and the world trade system, multinational corporations in the global economy and the national politics of mnc. International Political Economy. Interests and Institutions in the Global Economy. New York:Pearson Longman.

Sachs, Jeffrey (2005). The End of Poverty. London, Penguin.
Sen, Amartya (1999). Dvelopment as Freedom, New York, Oxford University Press, Oxford.

Soto, Hernando De, (2001) The Mystery of Capital, London: Black Swan.

Starr, Amory (2005). Global Revolt. London, New York, Zen Books.

Stiglitz, Joseph, (2003). Globalization and its Discontents. W.W. Norton. London og New York.

Stiglitz, Joseph, (2007). Making Globalization Work. Penguin Books, London.

Yunus, Muhammad (2008). Creating a World Without Poverty, Social Businesses and the Future of Capitalism, New York, Public Affairs.Til baka
Stefn Jn Hafstein - stefanjon@islandia.is