Í Úganda og borg storkanna

Sannkallaður farandsölumaður: Engin þörf á að eiga búð

Í Kampala höfuðborg Úganda finnst manni helsta táknið vera ótútlegir storkar sem hengja haus og standa á löngum kræklóttum löppum hvarvetna sem drepa má niður fuglsfæti, þó einkum á ljósastaurum. Þetta eru stórar skepnur og draga að sér athygli. En fegurð þeirra er ekki í samræmi við fjöldann. Borgin er stórborg finnst okkur sem komum úr litla dreifða sveitaþorpinu sem kallast höfuðborg Malaví. Nokkrar milljónir manna fylla strætin af ys og þys, mikil verslun virðist í gangi og það mun rétt vera: Hingað koma menn með uppskeru og kaupa, ja, helst bílavarahluti ef marka má framboð af þeim.


Gott með gufusoðnum banönum: Þurrkaður smáfiskur.

Bílstjórinn sem skaust í sýnisferð um borgina með okkur vildi sýna þrennt: Kirkjur, moskur og bílavarahlutabúðir. En hér eru líka bankabyggingar og umferðaröngþveiti sem nálgast amerískt að stærð, en ekki gerð, því druslurnar eru slíkar. Auðveldasta leiðin til að eignast bíl í Úganda er að kaupa notaðan frá Japan. En stjórnvöld ætla víst að sjá við því með ofurtollum, dæsir bílstjórinn.

Uppi á hæð gnæfir ekki hin gotneska kirkja heldur moskan sem Gaddafi Líubíuforseti gaf í heilu lagi. (Orð er haft á því að hann eigi vinkonu í Úganda).



Í þessu landi borða menn gufusoðna banana í flest mál. Þeir eru hraðvaxta í þessu græna landi uppi við miðbaug jarðar og eru uppistaða í máltíðum, útá er höfð sósa sem ef vel lætur hefur að geyma fisk eða kjöt með öðru smálegu. En aðalsöluvaran úr landi er kaffi. Landið er fjórfalt stærra en Ísland og á eina stóra auðlind: Aðgang að Viktoríuvatni. Stærsta vatni Afríku þar sem veiða má mikið af fiski.



Úti í eyjaklasa sem kenndur er við Kalangala starfar Þróunarsamvinnustofunun að byggðaverkefni með heimamönnum, þeir eru nokkrar tugir þúsunda á rúmlega 60 eyjum. Þetta eru dæmigerð fiskimannasamfélög. Gegnumtrekkur af farandfiskimönnum og sölufólki mikill. Samfélagsgerðin brotgjörn.

Hér eru allir litir jarðar grænir.  Inni í skógarþykkni standa karlar og höggva niður ávöxt af pálmatrjám.

Pálmatré standa á fyrrum skóglendum því þau gefa af sér ávöxt sem geymir fræ sem notað er til olíugerðar. Margir á þönum fram og aftur á einni af eyjunum sem við heimsækjum, löndunarstaðir og við þá verslunarmiðstöðvar. Kona með bananaklasa virðist ætla að gera það gott, og ekki síður náungi sem náð hefur risastórum nílarkarfa úr vatninu,

fiskurinn er á stærð við geit þar sem hann liggur reiddur aftan á mótorhjóli, gapandi kjafturinn gæti gleypt fermingarstrák.


Þetta er helsta fiskitegundin í vatninu, en aðrar smærri eru þar líka eins og sjá má af þurrkuðum smáfiski í sekk þar sem sölukonan virðist hafa brugðið sér frá. Verslanir eru fábrotnar, en húsakynni bjóða ekki upp á mikið.

Um götu gengur vefnaðarvörusölumaður sem virðist ekki einu sinni eiga borð til að falbjóða vöru sína á.



Þróunarsamvinnustofun styður fullorðinnafræðslu, og hér er bekkur að kynna sér ritmál í tengslum við vinnslu afla og góða meðferð á honum.

Vatnið er gríðarstórt og mikið: Myndi hylja ¾ af Íslandi. Bátar fiskimanna fara með ströndum og þegar utar er komið má sjá þá draga net, karlana, en reynt er að hafa strangar reglur um það hvers konar net má nota til að vernda hnignandi fiskistofna.


Til marks um hörkuna sjáum við fangahóp í gulum búningum vinna samfélagsvinnu, mér er sagt að sumir þeirra hafi gerst brotlegir við veiðireglur, eins konar landhelgisbrjótar. Þess vegna þurfa þeir að vinna við vegagerð, og ekki veitir af, stóru trukkarnir sem eiga að bera afla niður að ferjustæði til að komast í átt til Kampala geta varla komist niður sneiðingana. Það er í mörg horn að líta þegar byggja þarf upp samfélag.


Barnamergð er mikil og hvers vegna þau eru ekki í skólanum er spurning þar sem svar liggur ekki í augum uppi.

Skólinn er til, það sjáum við, skrýddur slagorðum á borð við þau að góðir nemendur forðist ótímabærar barneignir. Þær eru samt algengar. Sem og HIV smit: Nálgast 30% meðal eyjaskeggja. Aðkomumenn fara víða og hafa næturdvöl hér og þar, eiga stundum jafnvel tvær fjölskyldur hvora á sínum stað eftir því sem fiskigengd háttar og eftir því hvar veiðimenn kjósa að gera út.



Yfir hádegisverði ræðum við pólitík. Forseti landsins er á Breltandi að heilsa upp á Elísabetu drottningu og blöðin í dag sýna myndir af þeim tveimur ásamt dóttur forsetans. Forsetinn hefur ríkt í á þriðja áratug og alltaf tekst honum að fá stjórnarskránni breytt til að hann fái að vera lengur. Enda telur hann sig ómissandi er mér sagt.


Verslun er blómleg á eynni eins víða má sjá við löndunarstöðvar.  Kók og ávextir.

Við maulum gufusoðna banana í stöppu niður við vatn, sjáum bátana líða hjá, færandi varninginn heim, meðal annars fiskinn eins og við borðum líka, steiktan í brúnni sósu og svo er auðvitað grillaður ananas í eftirrétt. Beint af trjánum með viðkomu á kolagrilli.


Til baka
Stefán Jón Hafstein - stefanjon@islandia.is