Dagbækur: Ágúst-sept. 2009


Galdradans (sjá stuttmynd) , giftingar stúlkna og ljónasprang er dagbókarefnið.

Jörðin sviðnar með degi hverjum, tré fella lauf og grasið færist frá grænu yfir í gult: Það er vor.  Daginn lengir um hálftíma í hvorn enda, það er ekki lengur hrollkalt við fótaferð og á hádegi slær upp fyrir 30 gráður.  Nú fara í hönd heitustu mánuðir ársins sem hér kallast sumar, þar til að fyrstu regndroparnir í átta mánuði taka að falla í lok nóvember; þá umhverfis landið og skrýðist hágrænu á augabragði og maís er sáð í tilbúna akra.

 

Stóra málið síðustu vikurnar hér í Malaví er giftingaraldur stúlkna.  

Þingið ákvað að þær skyldu að lágmarki vera 16 ára við giftingu og þótti mörgum að svo ungar stúlkur ættu ekki erindi í hjónaband.  Hvað með menntun?  Starfsþjálfun?  Hví ekki að seinka barneignum í fólksfjölgunarvandamálinu miðju?  Öðrum fannst þetta framsækið.  Það var nefnilega verið að hækka aldurinn úr 15 í 16.  Hér hefur stjórnmálamönnum líklega þótt mikilvægt að miðla málum milli menntastétta og hefðbundinna viðhorfa lengst úti í sveitum þar sem sjálfsagt þykir að stúlkur taki til við hefðbundnasta kvennastarf allra kvennastarfa svo fljótt sem auðið er.  Það er algengt að sjá 14-15 ára stúlkur með fyrsta barn á baki vafið dulum.   Hér í þessu hákristna landi þykir barneign löngu fyrir hjónaband ekki mikið mál, og stundum jafnvel æskileg fyrir stúlku.  Hún hefur þá sannað sig fyrir væntanlegum eiginmanni.

 

Annað mál sem blöðin geipuðu talsvert um er trúin á galdra.  Einhver gerðist svo djarfur að staðhæfa í pistli að galdrar væru ekki til.  Upp reis mikil alda fréttaskýringa og umræðu þar sem hver á fætur öðrum vildi meina að galdrar væru til, ef ekki í raun þá að minnsta kosti í hugum fólks og það jafngilti raunverulegri tilveru í þessu tilviki.  Blöðin sögðu frá því að maður var tekinn við galdra á brú nokkurri í suður hluta landsins, hefði hent sítrónum í ána.  Löggan stöðvaði þessa ósvinnu enda vitað að þetta er hluti af særingu sem getur haft víðtæk áhrif sé rétt að staðið.  Annars eru galdrar hér talsvert ólíkir þeim sem lýst er í galdrasafninu á Ströndum þar sem íslenskir galdrar eiga sína heimildaskrá.  Hér fara nornir á kústsköftum eða öðrum prikum sem knúin eru mannsblóði.  Svo rammt kveður að þessu að fólk hefur kvartað yfir hrapandi nornum á hús sín; sú auma lending á að hafa stafað af eldsneytisskorti.  Fregnir berast af því að seiðskrattar taki barnahópa og kenni ósiði sína, sem ná hápunkti í mannakjötsáti.  Eru þetta raunverulegir atburðir eða bara hugarburður?  Um það snýst deilan.  En margir eru á því að andalæknar séu í sumum tilvikum ekki síðri en aðrir og deila þar skoðunum með þeim á Íslandi sem sækja styrk að handan.  Og grasalæknar eru auðvitað önnur deild, en af þeim er mikið.  Talað hefur verið um að setja lögskráningu á grasalækna til að skilja þá frá kuklinu, enda hafi þeir sannað sig.

 

En engir galdrar virðast ætla að duga til að koma Malaví á heimsmeistaramótið í knattspyrnu í Suður Afríku næsta sumar og eigum við þetta sameiginlegt smáþjóðirnar. 

 

Uppnám var í smábæ á landamærum Malaví og Sambíu.  Ljónahjörð hafði tekið sig upp og farið úr þjóðgarði handan mæranna og gerðist nú ágeng við búsmala. Og ekki nóg með það.  Sprönguðu eftir ljósaskiptin á götum bæjarins og sáust meðal annars standa fyrir framan bankann í miðbænum.  Mjög hefur dregið úr aðsókn á öldurhús og tekið til þess í fréttum hve áfengissala hafi dregist saman í bænum.

Til baka
Stefán Jón Hafstein - stefanjon@islandia.is