Breytum rétt
Inngangur   Kafli 1   Kafli 2   Kafli 3   Kafli 4   Kafli 5
2. kafli: Engin réttindi án ábyrgðar
 
Hvernig breytir allsnægtasamfélagið nálgun jafnaðarmanna til svonefndra ,,réttlætismála“? Felst hún í því að krefjast einfaldlega meira fyrir hönd meintra umbjóðenda eftir því sem auður vex? Eða freistum við þess að endurskilgreina stjórnmálastefnu sem á rætur að rekja til almennrar fátæktar og eilífra átaka um lágmarksframfærslu, en býr nú við allt aðrar aðstæður? Í hverju felst jafnaðarstefna í auðsæld eins og okkar?
 
Í þessum og næsta kafla færi ég fyrir því rök að markaðsvæðingunni þurfi að mæta með því að fjárfesta í félagsauði borgaranna, lýðræðislegum aðferðum sem ná dýpra og víðar en hingað til, og menntun sem er forsenda auðs á næstu öld. Jafnaðarstefna snýst því ekki fyrst og fremst um að dreifa efnislegum gæðum, heldur að gera öllu fólki fært að ráða eigin lífi – að skapa jöfn tækifæri.
 
 
 
Frjóvga þarf samfélagsumræðuna með því að horfa frá öðrum sjónarhóli en mönnum er tamt að gera í kröfugerðarpólitíkinni. Knýja einstaklinga og hópa til að líta í eigin barm fyrst, krefja svo, en ekki öfugt. Og samfélagið hefur ýmsar pólitískar leiðir til að ganga eftir þessari afstöðu: Með siðvæðingu og fræðslu, sem dregur ekki alltaf langt, og með skattlagningu, eða umbun, fyrir jákvæða breytni sem í felst forvörn við vanda. Þessi hugsun hefur ekki verið sterkasta hlið jafnaðarmanna.
 
Skipti jafnaðarmenn í upphafi 21. aldar ekki um sjónarhorn í þessu efni er það ekki aðeins efnislega rangt, heldur líka móðgun við þá miklu ávinninga forvera okkar sem nú eru í höfn, fólksins sem skóp auð á Íslandi. Það er kominn tími til að jafnaðarmenn geri kröfu til sjálfra sín:  Að þeir viðurkenni að velsæld og auður sem blasir við hafi í mörgu breytt þeim forsendum sem við störfum eftir. Það er ekki sjálfgefið að ,,verkalýðsstéttin“ (les: stofnanir og samtök) hafi alltaf rétt fyrir, sér þótt sögulega hafi jafnaðarmenn átt með henni samleið; það er ekki sjálfgefið að ,,jafnréttissjónarmið“ (les: ýmsar velmeinandi tæknilegar útfærslur til að leysa vandamál eins og klám, vændi og launaójöfnuð) séu skynsamleg, þótt jafnaðarmenn vilji skipa sér fremst í raðir jafnréttissinna.  Og það er ekki sjálfgefið að ,,velferðarríkið“ (les: ýmsar stofnanir, innri hagsmunatogstreita, þröngsýn kröfugerð og illa skilgreind ,,réttlætismál“) eigi alltaf að njóta vafans í pólitískri umræðu, þótt sögulega séð eigi jafnaðarmenn heiðurinn af hinu besta þjóðfélagsmódeli sem þó er völ á, og kallast norræna jafnaðarsamfélagið.
 
 
Við verðum að gera greinarmun á grundvallarréttindum og hinum sem er nauðsynlegt að skilyrða með ýmsum hætti. Ég er ekki viss um að við höfum alltaf nægilega skýra sýn á grundvallarréttindin og aðgreinum þau í huga okkur frá hinum sem flokkast allt frá því að vera æskileg, jafnvel sjálfsögð, og til þess að vera hreint og klárt bruðl. Jafnaðarmenn hafa jafnvel ekki léð  máls á því að græðgi, aumingjaskapur eða sjálftaka án réttlætingar skipti máli í pólitískri stefnumótun um velferðarmál. Við vitum auðvitað betur. Ef við sem viljum sækja fram undir merkjum jafnaðarmennsku þekkjum ekki muninn á grundvallarstoðum velferðarsamfélags og græðgi kröfugerðarstjórnmála mun okkur illa farnast.  Þar er pólitísk tækifærismennska versta freistingin.
 
Umbun og hvati
 
Það er álitin þegnskylda að kjósa til Alþingis og heiðra réttinn sem við höfum til þess, en langfæstir Íslendingar starfa í stjórnmálaflokkum sem eru í boði og flestir telja þessa flokka fjarlæga sér og úr tengslum við sig. Hið raunverulega inntak þess að hafa réttinn til að kjósa er í litlum metum, en hin táknræna (og stundum afdrifaríka) athöfn á fjögurra ára fresti er vissulega í hávegum höfð. Hún felur þó ekki í sér neina skyldu um upplýsingu, þátttöku eða annað það sem gefur henni raunverulegt inntak. Einstaklingurinn er ekki bara einn í kjörklefanum, hann er ábyrgðarlaus. Oft bara einn af mörgum úr tilteknum kröfugerðarhópi sem vill minnka framlag sitt til heildarinnar eða fá meira til eigin nota af sameign og vill kjósa sér fagmenn til þeirra verka. Rétturinn til að kjósa er ekki skilyrtur neinni ábyrgð eða skyldum á móti. Og á ekki að vera það. Hann er grundvallarréttur.
 
En hvað með rétt okkar á öðrum sviðum? Tökum rétt hvers einstaklings til að njóta bestu fáanlegu heilbrigðisþjónstu sem völ er á (sbr. lög þar um). Hér er útgjaldaliður sem er sá stærsti sem ríkisvaldið glímir við og langdýrasti sem skattgreiðandinn axlar. Séu frátaldar áberandi undantekningar (eins og ungbarnaeftirlit sem skylda er að gangast undir) þá ber einstaklingurinn enga ábyrgð, frekar en hann kýs, gagnvart heilbrigðiskerfinu. Það sem meira er: Sá sem kerfisbundið misbýður heilsu sinni (til dæmis með reykingum) og tekur óverjandi áhættu með líf sitt og limi (ekur ölvaður) og neitar að hlíta ítrekuðu læknisráði (um að hreyfa sig) á sama rétt gagnvart heilbrigðiskerfinu og hinir sem gera allt af ábyrgð og kosta kerfið þegar upp er staðið langtum minna en hinir sem engum ráðum hlíta. Og ekki nóg með það. Komi til þess að gera þurfi upp á milli manna innan heilbrigðiskerfisins (biðlistar) eða leggja fé í eina tegund aðgerða (fyrir áhættusinna) og draga úr lausnum til þeirra sem ekki eru jafn illa farnir (lifa heilsusamlegar), þá mun sá sem ekki tekur ábyrgð yfirleitt fá forgang og meira fé en hinn. Skussinn er verðlaunaður af því að slæmir lífshættir hans auka bágindi hans umfram hina sem þar með fá ekki jafn góða þjónustu.
 
Það að eiga bágt er nægileg ástæða til að vera tekinn fram fyrir alla aðra, þó svo að ástæðan sé algjörlega manni sjálfum að kenna. Þetta er jafnaðarstefna. Og ábyrgðarleysi.
 
Þetta þætti ekki eðlilegt á tryggingamarkaði. Síbrotamenn í umferðinni borga hærri iðgjöld af bílum sínum; brjóti maður af sér og veldur tjóni gildir sjálfsábyrgð sem getur verið mismunandi mikil eftir ferli eða atvikum.
 
Hvers vegna er samfélagstryggingin svona allt öðruvísi upp byggð? Fyrir því eru góðar og gildar sögulegar ástæður – sem ekki geta verið altækar lengur.
 
  
Með vaxandi auðsköpun og velsæld er auðvelt að gleyma sér í kröfunni um altæk réttindi (,,meira, meira: allt fyrir alla, alltaf“) í stað þessa að skilgreina hin sönnu grundvallarréttindi sem allir eiga að njóta án tillits til stöðu eða efnahags. Um önnur réttindi kann að vera rétt að setja skilyrði. Hér eru ekki tök á því að gegnumlýsa velferðarkerfið allt út frá þeirri forsendu. En það þarf að gera. Því jafnaðarmenn og aðrir vita fullvel að í raun er engin leið að standa við ýtrustu fyrirheit. Nú er svo komið að allur þjóðarauður nægði ekki til að kaupa ,,bestu fáanlegu heilbrigðisþjónustu fyrir alla“  – frekar en ýmislegt annað sem fyrirheit eru gefin um í samfelldri kröfugerðarpólitík. Og hvað gerum við þá? Mismunum. Ef ekki eftir efnahag – sem er leið auðvaldsins, þá hverju? Hver er leið jafnaðarmanna?
 
Engin einföld lausn er til. Hvað fæli það í sér að innleiða í skilgreindum þáttum velferðarkerfisins regluna um sjálfsábyrgð þess sem neytir réttar? Það fæli í sér að í hvert skipti sem löggjafinn segði fyrir um og skilgreindi réttindi, ætti jafnframt að binda með sama hætti í lög regluna um skyldur, eða ábyrgð, þess sem nýtir sér þau. Þjónustugjöld eru takmörkuð viðleitni í þessa átt og alls ekki réttlát þegar verst lætur. Ef rætt er um jákvæðar aðgerðir byggðar á sjálfsábyrgð, sem eiga að stuðla að bættri heilsu almennt, þá horfir málið öðruvísi við. Eru slíkar leiðir færar í auðugu og menntuðu samfélagi þar sem mörgum gjörðum borgara er ekki lengur stýrt af neyð, heldur upplýstu vali?
 
Tökum dæmi: Hugsanlega er rétt að skattleggja sérstaklega notkun nagladekkja. Þau nota menn (væntanlega) til að minnka eigin áhættu á tjóni og hafa því af ábata (hugsanlegan). Samtímis dreifa notendur nagladekkja eiturörðum af götum borgarinnar í öndunarfæri samborgaranna svo sannað þykir að fólk bíði tjón af. Ekki nóg með það, þeir skaða sameign borgaranna, göturnar, umfram það sem flokkast undir eðlileg not og valda öllum skattgreiðendum tjóni. Væri ekki fróðlegt að sjá það dæmi gert upp í heild? Á sama hátt má auðvitað reikna hinn raunverulega kostnað við reykingar. Á hverju ári deyr sem svarar einum flugvélafarmi Íslendinga úr krabbameini sem rekja má til reykinga, beinna eða óbeinna. Fyrir utan manntjónið verður fjárhagstjón. Hvert er hið raunverulega verð sígarettupakka í þessum skilningi? Og ábyrgð þeirra sem reykja? Þessi dæmi eiga sér hliðstæðu í umræðunni um áfengi:  Frjálslynt fólk vill lægra verð (minni skatta) og fleiri dreifileiðir til að auðvelda sér verslunarferðir. Ábyrgt fólk vill reikna dæmið til enda í auknu heilsutjóni, fleiri áfengissjúklingum og eignamissi auk annars óskunda sem vímugjafinn veldur. Hefð er fyrir ríkri opinberri forsjá í áfengismálum, sem nú er á undanhaldi fyrir tískuviðhorfum sem eru pólitískt líkleg til vinsælda. Þau ganga í raun gegn betri vitund samkvæmt því sem Alþjóðaheilbrigðisstofnunin segir.
 
Þessi dæmi um nagladekk, reykingar og áfengi eru nógu skýr í sjálfum sér, en hin pólitíska aðferð við að nálgast þau alls ekki. Svo er í vaxandi mæli með fjölmörg önnur mál þar sem ,,boð og bönn“ ríkisvalds ganga ekki upp í samtímahugsuninni. Upplýst, menntað og hreyfanlegt samfélag gengur illa eftir boðum og bönnum að ofan. Hefðbundið viðbragð jafnaðarmanna er einkum að efla ríkiseftirlit með stofnunum, embættum, reglugerðum.  Hér er ekki tillaga um slíkt.  Í stað þess að banna eða boða, má umbuna ríkulega, hvetja og styðja jákvæða hegðun, en refsa með sköttum og gjöldum fyrir sóun og slæma hegðun. Þeir sem taka upplýsta áhættu greiða, þeir sem nýta auðlindir borga, þeir sem leggja lið spara.
 
Ef marka má heilbrigðisstéttir mætti spara mikla fjármuni með því að fyrirbyggja þau vandamál sem við greiðum fyrir að leysa eftir að þau hafa orðið til. Heilbrigðiskerfið er að stórum hluta sjúkdómakerfi. Það hefur það hlutverk að bæta úr eftir að skaðinn er skeður, ekki koma í veg fyrir hann.
 
Fróðlegt væri að sjá langtímaáætlun í heilbrigðismálum sem fæli í sér að teknir væru upp vissir þættir úr einkareknum heilbrigðiskerfum, þar sem tryggingaiðgjöld einstaklinga eru hærri eftir því sem þeir taka meiri áhættu með heilsu sína. Í opinberu velferðarkerfi mætti e.t.v.  snúa dæminu við, umbuna fyrir jákvæða hegðun, t.d. með hóflegri skattalækkun fyrir þá sem halda sig innan viðurkennds áhætturamma. Í staðinn fyrir að boða trú á einkavæddar hátæknilækningar og refsa fyrir áhættuhegðun (eins og í einkareknu tryggingakerfi) mætti umbuna þeim sem gæta heilsu sinnar.  Er hægt að setja almennar leiðbeinandi reglur fyrir þá sem standast reglubundnar mælingar heimilislæknis,
 halda sig við kjörþyngd,  standast þolpróf og svo framvegis?  Ég veit hreint út sagt ekki hvort hægt er að setja fram eðlilega, réttláta og hvetjandi kröfu um sjálfsábyrgð þeirra sem nýta sér tiltekna almannaþjónustu.    Hingað til höfum við sagt: Gerum engan mannamun, allir eiga sama rétt, góð heilsa er hvort sem er besta umbunin fyrir þá sem fara vel með sig. En röksemd mín er þessi: Það er gerður mannamunur. Fólk sem vísvitandi fer illa með heilsu sína og neitar ráðum um annað tekur óhóflega stóran hluta takmarkaðra gæða til sín á kostnað þeirra sem axla ábyrgð.
Menn hafa í raun hugsað á svipaðan hátt um félagslegan stuðning: Hann þurfi að fela í sér hvata til sjálfsbjargar, til dæmis með því að skerðing á bótum virki ekki sem refsing sæki fólk sér aukatekjur. Sjálfsábyrgð og sjálfshjálp á ekki að vera refsiverð, hvetja á til hennar með umbun og því að styrkja jákvæða hegðun.
 
 
Auðvitað dettur fólki fyrst í hug hátimbraður eftirlitsiðnaður þegar svona hugsun er orðuð.  Sú má einmitt ekki verða raunin.  Erfitt er að umbuna fyrir jákvæða hegðun sem hefur forvarnargildi og sparar samfélaginu fé þegar upp er staðið.   Gjöld fyrir sóun þurfa að vera innbyggð í verð.  Hvati til að  spara eða breyta rétt á að vera áþreifanlegur.  Tvísýnast er um þann árangur sem hafa má af ,,átaki” eða ,,kynningarherferð” á vegum þess mikla auglýsinga- og forvarnaiðnaðar sem upp er risinn til að friða samvisku hins opinbera.  Mála sannast er að hér engin lausn einföld eða altæk.  En við þurfum að spreyta okkur á raunhæfum ráðum sem oft má læra af markaðnum, sem segir: Ekkert er ókeypis.  Og frá samfélagslegum sjónarhóli litið má enginn sleppa án ábyrgðar.
 
 
Það sama gildi um fyrirtæki
 
Um leið og ég kalla eftir skapandi lausnum sem fela í sér aukna ábyrgð einstaklinga verða fyrirtækin að axla samfélagsábyrgð.  Markaðsvæðing á alla lund á ekki að fela í sér stóraukinn einkagróða fárra útvalinna með því að velta vandanum yfir á örmagna velferðarkerfi.  Niðurstaðan úr því dæmi er augljós:  samfélag sundrungar, ójöfnuðar og stéttaskiptingar.
 
Fyrstu merki þess að Ísland sé að færast í þessa átt eru í augsýn.  Hér er ofsagróði fjármálafyrirtækja og útbólginn hlutabréfamarkaður annars vegar.  Hins vegar eru þúsundir ,,öryrkja” sem virðast hrekjast undan hagræðingar- og samþjöppunarhrinunni, af vinnumarkaði inn í ríkisumsjá, eða vinnuafl sem verður ,,svart” fyrir utan lög og rétt.  Getur einkaframtakið krafist þess endalaust að fá aukið svigrúm til hagnaðar án þess að taka ábyrga afstöðu til þess samfélags sem það nærist á?
 
Hér er því miður engin einföld lausn, en viðfangsefnið eitt það brýnasta sem við blasir.  Fyrir frjálslynda jafnaðarmenn er staðan tvíbent.  Hnattvæðing, frjálst fjármagnsflæði og opinn vinnumarkaður gefa ekki aðeins tækifæri til auðsköpunar fyrir okkur öll eins og dæmin sanna, heldur kalla líka yfir okkur firrtan kapítalisma.  Firrtur kapítalismi hefur hagnaðarvonina eina að leiðarljósi og telur sig ekki hafa neitt annað löggilt hlutverk; hann er landlaus og því ekki haldinn neinni ættjarðarást; hann er ópersónulegur og því ekki skuldbundin huglægum gildum eins og jafnrétti og bræðralagi.  Ísland allt gæti lent í sams konar klemmu og litlu landsbyggðarþorpin þekkja svo vel þegar allt er farið ,,suður á bankanna vald”.
 
Dýrið gengur laust.  Við viljum að það skapi auð en leggi ekki mannlegt samfélag í rúst með þeirri einföldu aðferð að svelta velferðarkerfið af fé með sílækkandi sköttum, en leggja sífellt fleiri vandamál á herðar þess um leið.   Ísland má ekki breytast í samfelldar Kárahnjúkabúðir.
 
Hér gilda sömu varnaðarorð og áður: Við viljum ekki hátimbraðan ríkiseftirlitsiðnað.  En við teljum ekki vænlegt til frambúðar að stóla á gæskuríka mildi auðjöfra til að tryggja menntakerfi og læknisþjónustu fyrir börnin.  Evrópuríkin glíma saman og hvert með sínum hætti við þessi verkefni.  Forystuhlutverk jafnaðarmanna felst í að leita samráðs og samkomulags um skilgreind félagsleg markmið hins opinbera og einkareksturs – en þar hafa samtök eins og ASÍ þegar lagt til málanna.   Hér gilda vinnubrögð um hvata, umbun og refsingu - sem almannavaldið getur beitt
 
Á leyfi til nýtingar auðlinda að vera tengt skilgreindri félagslegri ábyrgð þeirra fyrirtækja sem slík leyfi fá?   Hvers vegna ekki?  Það þýddi að fyrirtæki um útgerð, landbúnað og stórvirkjanir á borð við Kárahnjúkavirkjun yrðu að semja um félagslega ábyrgð sem forsendu fyrir auðlindanýtingu.  Þessi ábyrgð tæki til umhverfis, starfsmanna, þátttöku í að byggja upp innviði samfélagsins með símenntun og  öðrum slíkum tækifærum.   Þessar atvinnugreinar njóta styrkja frá ríkinu í einni eða annarri mynd.  Stærsta fjárfestingarafl á Íslandi eru lífeyrissjóðirnir.   Þeir eiga tæpast að setja sér félagsleg skammtímamarkmið um fjárfestingar í einstökum fyrirtækjum (reddingastjórn), en geta sem best sett sér almennar reglur um fjárfestingar í fyrirtækjum sem lúta ákveðnum siðalögmálum.  Til lengri tíma litið teljum við ekki að verið sé að setja klafa á auðsköpun, heldur þvert á móti, skapa samfélag sem er fyrirtækjum vinsamlegt og hagfellt.  Það er hreint út sagt fáránlegt að færa sjávarauðlind þjóðarinnar ókeypis i hendur örfárra manna skilyrðislaust og án skuldbindinga.  Það er jafn fáránlegt að sprengja náttúruundur í loft upp og brjóta undir virkjun fyrir lánsfé með opinberri ábyrgð með vinnuafli sem nýtur ekki lágmarksréttinda.
 
   
En hvað með þá sem ekki geta?
 
Það er hægt að fara á flug um réttindi, skyldur og ábyrgð með skírskotun til þess að velsæld er almenn, upplýsing og menntun mikil. En samt er það svo að alltaf eru einhverjir sem ekki geta. Ná ekki að svara kalli samfélagsins, af ýmsum ástæðum sem stundum eru góðar og gildar og stundum – því miður – hrein og klár andfélagsleg hegðun af ýmsum toga. Sú hegðun er ekki alltaf auðskýrð með vonsku samfélagsins eins og hefur verið uppáhaldsafsökun jafnaðarmanna til að réttlæta óréttlætanlegar smugur í velferðarkerfi eða óhóflegt örlæti við þá sem enga björg vilja sjálfum sér veita. Þetta er samt ekki stórt vandamál miðað við heildina. Ekki frekar en raunveruleg fátækt á Íslandi. Fátækt á Íslandi er staðreynd, en hún er ekki yfirgengileg. Hún er nógu fjári slæm fyrir þá sem glíma við hana, en fyrir samfélagið er ekki stór biti að hjálpa fólki sem er í raunverulegri neyð. Okkur ber skylda til að gefa þeim einstaklingum færi á að verða fullgildir þátttakendur í meginstraumi samfélagsins. Við höfum stundum fallið í þá pólitísku gryfju að gera of mikið úr meintum hörmungum þeirra sem eru á jaðri auðsældarsamfélagsins, lýsa þeim sem stórmáli. Þær eru stórmál fyrir tiltölulega fáa; fátækt er slæm fyrir þá sem í lenda og við eigum að hjálpa þeim, en ekki gera of mikið úr því sem samfélagslegu verkefni. Auður er nægur á Íslandi til þess að slétta úr þessari misfellu. Það viljum við og eigum ekki að þola þróun sem leitt getur af sér að hér verði til undirmálshópur kynslóð fram af kynslóð.
 
Umræðan hefur gerjast og þroskast á liðnum árum og gerir enn. En vitneskjan er í þessu efni eins og öðrum ekki nóg. Hvað gerum við? Við ástundum ekki þá endurskoðun sem nauðsynleg er og holl og við beitum ekki þessari vitneskju í verki þar sem þess gerist þörf og tækifæri eru til. Þetta er hluti af hugmyndakreppu jafnaðarmanna og um leið eitt stærsta tækifærið til að afla trausts þjóðarinnar til að endurskapa og endurnæra gott samfélag.
 
Við vorum sett í vörn
 
Það er fásinna að viðurkenna ekki að sókn nýfrjálshyggjunnar setti jafnaðarmenn í vörn. Út úr þeirri herkví hefur ekki að fullu verið brotist. Hægrimenn hafa ekki aðeins einkavætt og markaðsvætt efnahagslífið (sem var í mörgum þáttum nauðsynlegt) heldur og boðið fram af krafti lausnir sem á yfirborðinu eiga að sýnast samfélagslegar og praktískar, en eru ógn við félagslega hugsun og velferð. Þetta er ,,markaðs- og neytendavæðing“ opinberrar þjónustu. Sums staðar á hún rétt á sér vegna þess að markaðurinn býður nú lausnir sem áður voru óþekktar og hið opinbera þarf ekki lengur að veita. Annars staðar verður þessi viðleitni nýfrjálshyggjunnar nánast hláleg: nauðhyggjuprédikanir gegn stuðningi við menningu og listir; pólitískt skipbrot eins og 20 ára atlaga gegn almenningsútvarpi; trúarleg klifun á nauðsyn einkavæðingar grunnskóla. Hið hreinræktaða ameríska „business model“ er einfaldlega ónothæft sem grunnur að samfélagsgerð. Það leiðir til ójöfnuðar, vesældar stórra hópa og vannýtingar á mannauði sem aldrei fær þau tækifæri sem öllum er hollt að fá að reyna sig við að nýta. Stórfelld einkavæðing á orkukerfi Kaliforníu leiddi til hruns – og þarf talsvert til í fimmta stærsta hagkerfi heimsins. Önnur dæmi eru ljós af reynslu um að grunngerð samfélagsins sé svo mikilvæg fyrir almenna velferð og auðsköpun að ekki sé vogandi að láta eyðingaröfl markaðarins fara um hana eldi sínum. Finnst fleirum en mér að jafnaðarmenn heima og erlendis hafi verið hikandi á mikilvægum sviðum almannaþjónustu þegar fingralöng einkavæðing hefur boðist frá hægri?
 
Varnarviðbrögð jafnaðarmanna hafa oft verið fálmkennd. Stundum einog utanaðbókarlært viðbragð til að verja það sem var, eða yfirborðsleg hentistefna til að þóknast þröngum hagsmunum eða tískubólum. Annars vegar hafa menn bundið sig við hefðbundna ríkisafskiptastefnu 20. aldar, eða hörfað skipulagslaust undan áróðri nýfrjálshyggjunnar. Hvorugt stenst. Jafnaðarstefna 21. aldar verður afurð gagngerrar endurskoðunar sem hefur að leiðarljósi ákveðin grunngildi, skilgreind réttindi og skyldur á móti, og lýðræðisvæðingu sem nær til sem flestra þátta í hinu opinbera lífi.  Um lýðræðisvæðinguna fjallar næsti kafli.
 
Grunngildin
 
Þau grundvallargildi sem jafnaðarmenn vilja slá skjaldborg um varða fyrst og fremst þrjá þætti:
 
– Heilsuvernd, sem er öryggistrygging borgaranna og allir eiga rétt á. Hún getur ekki verið altæk, en hún á að vera víðtæk og á sameiginlegri ábyrgð gegnum ríkisvaldið sem leitar hagkvæmra og góðra leiða til að veita hana.
– Menntun sem er leið hvers einstaklings til að næra og þroska hæfileika sína, vaxa að verðleikum og skapa sér og sínum tækifæri og nýta þau.
– Lýðræði. Þegar einstaklingnum er búin heilsa og hæfni til að axla ábyrgð á eigin lífi og taka vald um eigin hag, verðum við að tryggja til þess leiðir.
 
Á Íslandi eigum við gott heilbrigðiskerfi sem þarf þó að endurskoða, og við eigum gott menntakerfi sem þarf að bæta enn. Við erum langt á eftir eigin getu í því að fela borgurum sjálfsvald um eigin hag og áhrif um samfélagsmál eftir lýðræðislegum leiðum. Um leið og við bætum heilbrigðis- og menntakerfið byltum við samfélagsgerðinni hvað varðar lýðræði og stjórn.
 
Niðurstaða mín er því sú að jafnaðastefna á nýrri öld mótist ekki fyrst og fremst af ,,réttlátri skiptingu auðsins“ þótt alltaf verði verkefni sem þarf að leysa á þeim vettvangi. Í samfélagi sem er að langstærstum hluta upplýst og auðugt er verkefni jafnaðarmanna að skapa öllum þær grundvallarforsendur sem þarf til að ráða eigin örlögum að því marki sem mannlegur máttur fær. Verða sinn eigin skapari. Andspænis auðvaldinu fjárfestum við í og byggjum upp félagsauð borgara, lýðræðisvæðum samfélagið og veitum öllum þá menntun sem þarf. Þannig verður markaðurinn þjónn en ekki húsbóndi og maðurinn ráðandi.
Stefán Jón Hafstein - stefanjon@islandia.is